Reynolds átti sér ímyndaðan vin sem barn

Leikstjórinn og fyrrum Office stjarnan John Krasinski hefur safnað heimsfrægum leikurum saman í nýjustu kvikmynd sína IF, eða Imaginary Friend, sem komin er í bíó hér á Íslandi. Þar má fremsta nefna Ryan Reynolds og Steve Carrell.

Reynolds leikur burðarhlutverk í myndinni en kvikmyndin fjallar um unga stúlku sem lendir í erfiðri reynslu og byrjar að sjá alla ímyndaða vini fólks sem setið höfðu eftir þegar krakkarnir sem áttu þá uxu úr grasi.
Þar sem hugmyndin var snjöll og eitthvað sem allir ættu að geta tengt við var það auðveld ákvörðun fyrir Reynolds að taka hlutverkið að sér, eins og sagt er frá í vefmiðlinum Weon.

Í samtali við WION, spurður að því hvort hann hefði sjálfur átt sér ímyndaðan vin sem krakki, sagði Reynolds að svo hefði verið. Hann hefði átt ímyndaða vininn Pookie. „Hann leit út eins og bangsi,“ segir Reynolds. „Við Jeff bróðir minn áttum hann saman og toguðumst á um hann. Samband okkar var pínu skrýtið. Við tölum um það enn þann dag í dag.“

If (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7
Rotten tomatoes einkunn 49%

Saga af stúlku sem kemst að því að hún getur séð alla ímyndaða vini. Hún heldur af stað í ævintýralegt ferðalag til tengja krakka aftur við gleymdu ímynduðu vini sína. ...

Hugmyndin um ímyndaða vini er bæði ögrandi og áhugaverð að sögn Reynolds. „Þeir eru yfirleitt búnir til af nauðsyn. Börn sem telja sig ekki geta reitt sig algjörlega á foreldrana til að líða vel og hafa það gott búa þá til. Þau verða að finna aðrar leiðir til að komast af. Og þau gera það með því að skapa ímyndaða vini.“

Aðrir helstu leikarar eru Cailey Fleming, John Krasinski, Fiona Shaw og Phoebe Waller-Bridge og Louis Gossett Jr.

Snerti hana djúpt

Fleming, sem leikur hina ungu Bea, segir við Screen Rant að handrit Krasinskis sé frábært og leikstjórnarstíllinn sömuleiðis. Hún segir að stundum hafi hún þurft að taka sér pásu þegar hún var að lesa handritið vegna þess hve djúpt það snart hana. „John er einstakur leikstjóri. Hann er ein af mínum uppáhaldspersónum. Hann er svo ákveðinn og hefur svo mikla ástríðu fyrir þessari kvikmynd. Ég er algjörlega heilluð af því hvernig hann vinnur. Hann bókstaflega gerði allt. Ég trúi því varla. Hann er eiginlega töframaður, ofurhetja, og það er heiður að vinna með honum.
Ég man þegar ég las handritið fyrst hvernig ég tengdi strax við það, sem er mjög sérstakt. Ég man að það voru atriði sem ég gat ekki lesið í gegn án þess að byrja að gráta. Ég þurfti að taka pásu og svo byrja aftur. En svona skrifar John. Hann býr til töfrandi heim á blaðsíðunni. Ég hef aldrei upplifað það áður.“

Bleikur og glitrandi

Fleming langaði að skapa sinn eigin ímyndaða vin eftir að hafa leikið í kvikmyndinni, og sameina í honum marga uppáhaldshluti sína, þar á meðal liti og dýr. Hún á þó enn eftir að finna rétta nafnið.

„Ég átti mér ekki ímyndaðan vin sem barn, en síðan þá hef ég búið mér einn til. Það er bleikur, glitrandi höfrungur því höfrungar eru uppáhalds dýrið mitt og bleikur uppáhalds liturinn minn, og svo auðvitað elska ég glimmer. Og hann er með horn eins og einhyrningur.“

Fyrir börnin sín

Krasinski segir að með IF hafi hann viljað búa til kvikmynd fyrir börnin sín, en myndin tengdi hann á endanum við hans innra sjálf. IF minnti hann á afhverju það er gott að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og myndin lét hann minnast ímyndaðra vina barnæskunnar.

„Við megum áfram vera fíflaleg, við megum áfram dreyma, vona og hafa metnað og nota það í heiminum eftir því sem við eldumst. Raunheimar og þeir ímynduðu geta lifað saman. Það er það sem ég hef lært.

En ég átti ímyndaðan vin sem hét Sam Braith því þegar ég var átta ára gamall, þá vildi ég fá spangir (e. Braces) því mér fannst þær það allra svalasta sem hægt var að vera með. En í ljós kom að svo var ekki.
En svo er fyndið að þegar ég var hálfnaður með eitt viðtal áttaði ég mig á, heyrðu, maður, hvað ef Sam leikstýrði kvikmyndinni? En alls ekki ég. Barnið innra með mér kom svo mikið í gegn að ég gat leikstýrt myndinni fyrir sjálfan mig. Þannig að ég veit ekki. Sam á heiður skilinn.“