Náðu í appið
Öllum leyfð

The Greatest Movie Ever Sold 2011

(Pom Wonderful Presents: The Greatest Movie Ever Sold)

Frumsýnd: 26. ágúst 2011

He's not selling out, he's buying in.

90 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 72% Critics
The Movies database einkunn 66
/100

Hefur þú einhvern tíma tekið eftir því að uppáhalds gosið þitt sést reglulega í bakgrunninum í nýjustu rómantísku gamanmynd sumarsins? Hefur þú einhvern tíma pælt í því af hverju Carrie Bradshaw úr Sex and the City notar ákveðna tegund af sápu? Í nýjustu mynd Morgan Spurlock, sem gerði garðinn frægan með Super Size Me, færir hann kastljósið af... Lesa meira

Hefur þú einhvern tíma tekið eftir því að uppáhalds gosið þitt sést reglulega í bakgrunninum í nýjustu rómantísku gamanmynd sumarsins? Hefur þú einhvern tíma pælt í því af hverju Carrie Bradshaw úr Sex and the City notar ákveðna tegund af sápu? Í nýjustu mynd Morgan Spurlock, sem gerði garðinn frægan með Super Size Me, færir hann kastljósið af skyndi-bitamenningu Bandaríkjamanna yfir á það hvernig vörumerkjum er komið fyrir í bíómyndum, þáttum og öðrum stöðum þar sem þau kunna að vekja eftirtekt. Hann spyr sig einfaldrar spurningar: Ef hann væri studdur fjárhagslega af réttu vörumerkjunum, gæti hann gert heimildarmynd sem væri jafn vinsæl og stærstu myndirnar í bíó? Við fylgjumst með Spurlock allt frá fyrstu fundum með framleiðendum og leiðir hann okkur baksviðs í heim markaðshyggju og sölumennsku sem hinn venjulegi neytandi átti aldrei að sjá. Hann setur spurningamerki við fáránlegt magn vöru- merkjastaðsetninga í daglegu lífi okkar allra en notar ávallt sinn einstaka húmor til að fræða okkur og skemmta. ... minna

Aðalleikarar

Langur brandari sem heldur samt athygli
Þeir sem sáu fyrstu Iron Man-myndina hafa örugglega ekki gleymt senunni þar sem Tony Stark snýr aftur frá Afghanistan í sársauka og segir að það fyrsta sem hann vill er "amerískur ostborgari." Strax í næsta atriði sést Jon Favreau afhenda Robert Downey Jr. Burger King poka (þar sem merkið snýr að sjálfsögðu að myndavélinni) sem hann síðan eignar sér alveg án þess að deila með sér. Síðan er miklu meira áberandi dæmi í myndinni I, Robot þar sem Converse-skórnir hans Will Smith eru næstum því gerðir að heilum aukakarakter. Mjög snemma í myndinni sést Smith opna skókassann, horfir svo ofan í hann og dáist ("A Thing of beauty" minnir mig að hann hafi sagt). Eins og það sé ekki nógu pínd auglýsing neyðist Smith stuttu síðar til að segja það beint út hvaða skótýpa þetta er og frá hvaða ári hún er. Persónur horfa oft á skóna og er það ekki fyrr en þeir eru eyðilagðir þar sem Smith verður fyrst alveg bandbrjálaður. Og þetta er m.a.s. eftir að bílnum hans hefur verið rústað.

Allir sem bera einhver merki um þroska vita að í svona tilfellum eru vörurnar ekki settar inn í myndirnar vegna þess að það stendur í handritinu. Öllu heldur eru þær settar inn á síðustu stundu og skelltar á þann stað sem merkjaeigandinn er sáttastur með (annars borgar hann ekki sinn hluta í framleiðslufjármagninu). Sem betur fer fljúga svona faldar auglýsingar ekki alltaf í smettið á manni, en það er óneitanlega sárt að sjá það þegar bíómyndir breytast ósjálfrátt í TV-spotta fyrir vörur sem koma efnisinnihaldinu ekkert við.

Mér finnst frábært að sjá Morgan Spurlock tækla mynd sem fjallar um vörumerkingar og það öfgafulla stig sem auglýsingar eru komnar á. Spurlock er nú þekktur fyrir að gera sérstakar tilraunir, oftast með sjálfan sig í miðjunni, og núna hefur hann ákveðið að fjármagna heila mynd með því að nota einungis fyrirtæki vörumerkja sem styrktaraðila. Þetta er fyrst og fremst gert í grínsskyni og líka til að senda einhver skilaboð til Hollywood. Það áhugaverða við þessa framleiðslu er að svona 70% af lengdartímanum fer í það að sýna hvernig lokaafraksturinn varð til, sem er gríðarlega spes! Við erum semsagt að horfa á Spurlock afla sér pening og semja um það sem við erum að horfa á. Jimmy Kimmel fleygir þau orð í myndinni þar sem hann kallar þetta "Inception heimildarmyndanna." Mikið vildi ég nú að svo væri.

Ef þessi mynd væri Inception-heimildarmyndanna (nokkuð stórt "ef" en segjum að svo væri) þá væri hún markviss, skipulögð og með ákveðinn skerf af nýjungum. Þó svo að fjármögnunin og svipur myndarinnar í heild sinni sé nokkuð óvenjulegur þá er voðalega lítið sagt sem kemur manni á óvart. Það er sumt sem ég vissi ekki, en stundum leið mér eins og Spurlock væri bara að púsla því besta sem hann gat úr efni sem var aldrei neitt rosalega áhugavert til þess að byrja með. Ég hefði alls ekki grenjað það að fá meiri fókus á Hollywood-hliðina. Menn eins og J.J. Abrams, Quentin Tarantino, Peter Berg og Brett Ratner poppa hér upp og virðast allir hafa sitt að segja um áhrif stórfyrirtækja í bíómyndum. Allt áhugaverðar pælingar (finnst t.d. magnað að Ratner skuli vera mesti "sell-out" leikstjórinn af þeim, einfaldlega vegna þess að það kemur ekkert á óvart) og sumar stafa það akkúrat út það sem maður hefur alltaf haldið. Verst er að hvert viðtal endist í mjög stuttan tíma. Gæti alveg trúað því að það hafi verið meira af efni til. Abrams segir t.d. ekki nema eina setningu.

Það eru ýmsir kaflar í myndinni sem virðast ekki hafa neitt merkilegt að segja og stundum líður manni eins og Spurlock hefði getað gert eitthvað frábært úr þessu hefði hann gefið sér meiri tíma í verkið. Það er hellingur af góðu efni til staðar, og ég er ánægður að góða efnið sé í meirihlutanum. Spurlock þarf samt að gera hellings heimavinnu ef hann á einhvern tímann að toppa fyrstu myndina sína, Super Size Me. Sú mynd, eins og allar sem hann hefur nú gert, sagði manni lítið nýtt en henni tókst engu að síður að opna augu manns. Þar að auki var hún frábærlega samsett, fjölbreytt, fyndin, skipulögð og hafði markviss skilaboð. Önnur myndin hans, Where in the World is Osama bin Laden, var soddan tímasóun að mínu mati, og það eina sem tæplega kom í veg fyrir drepleiðinlega mynd var líflega nærvera kvikmyndagerðarmannsins. Spurlock má samt alltaf eiga það að vera mjög góður með hraða. Hann eyðir aldrei of miklum tíma í ákveðið málefni og flakkar stöðugt fram og tilbaka til að lengdartíminn rúlli betur. Hingað til hefur kallinn aldrei farið langt yfir 90 mínútna markið.

Ég get samt ekki neitað því að Spurlock er ægilega hress og skemmtilegur gaur til þess að fylgjast með. Hann er alltaf léttur á því, viðkunnanlegur og fyndinn og það er einmitt það sem gerir The Greatest Movie Ever Sold nokkuð góða. Senurnar þar sem hann selur sig alveg út og leikur í "þvinguðum" auglýsingum sem koma inn á milli voru æðislegar, og ég grenjaði næstum því úr hlátri þegar hann kom með grófari hugmyndir á fundi til að auglýsa POM Wonderful ávaxtasafa. Product placement-innskotin hjá honum út myndina voru líka stundum meiriháttar fyndin.

Eins og gengur og gerist samt í heimildarmyndum er maður alltaf óviss um hvar sannleikurinn endar og einfaldur leikur byrjar. Það skiptir samt engu máli í þessu tilfelli því myndin kemur flestu til skila sem hún ætlar sér, bæði í gríni og alvöru. Stundum vekur hún kannski upp fleiri spurningar heldur en hún svarar en afþreyingargildið er alveg á sínum stað og maður getur ekki annað en dáðst pínulítið að Spurlock fyrir að vera fyrstur til þess að gera eitthvað sem fáum öðrum hefði dottið í hug að gera; Að selja sig út og gera grín að því um leið.

7/10

Ég tel nú samt enn að Wayne's World hafi best náð að gera grín að product placement-ruglinu, og þá í rétt svo einu atriði.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn