Ein ástæðan af hverju Twilight-myndirnar hafa fallið svona vel í kramið hjá ungu fólki er sú að það eru bara ekki til nógu margar góðar (hvað þá töff) vampírumyndir þarna úti. Sumir eru einfaldlega farnir að sætta sig við miðjumoðið eða verra. Daybreakers er ekki aðeins skrefið í réttu áttina að mínu mati, heldur einhver ferskasta, athyglisverðasta og metnaðarfyllsta mynd sinnar tegundar í ábyggilega meira en áratug. Það segir auðvitað ekki neitt, en trúið mér, þessi mynd gerir fyrir vampírur það sem District 9 gerði með geimverur. Hún býr s.s. til ýkta - en aldrei of yfirdrifna - útgáfu af okkar heimi ásamt því að þræða haug af hugmyndum inn í traust handrit. Samt er nóg pláss eftir fyrir subbuskap, húmor, smá hasar og örlitla persónusköpun - og allt þetta er unnið fyrir litlar $20 milljónir (þriðjungi minna en D-9).
Ég var allt annað en ánægður með fyrstu mynd þeirra Spierig-bræðra, Undead, en með þessari mynd hafa þeir stokkið upp um mörg fet í áliti hjá mér. Sjónræni stíll þeirra er einstaklega grípandi hérna. Myndin lítur glæsilega út og þrátt fyrir B-mynda brellur er ótrúlegt hvað leikstjórunum tókst að gera mikið fyrir lítið. Handritið þeirra er líka þrælskemmtilegt. Grunnhugmyndin er frumleg og sagan heldur dampi án þess að fara út í klisjur eða svo mikið sem dauðan kafla. Það eina sem mér fannst ekki eiga erindi inn í myndina var hasarinn. Hann virkaði ótrúlega vel á sumum stöðum, en á hinn bóginn fannst mér eins og bræðurnir ákváðu að troða hasar inn í myndina af engri sérstakri ástæðu nema bara til að ná til breiðari mainstream-hópa. Ef þeir hefðu haldið lágstemmda (en samt drungalega) tóninum og nýtt frekar fjármagnið í að stækka heiminn aðeins meira þá hefði þessi mynd getað orðið stórkostleg.
Ekki samt halda að ég kunni ekki að meta hraðskreiða bíla, byssuhvelli og Willem Dafoe haldandi á lásaboga. En mér fannst samt alltaf myndin mun áhugaverðari þegar hún var ekki alveg eins "hefðbundin" og þegar lætin byrjuðu. Einnig fannst mér það hreint út sagt glatað þegar ákveðin bifreið sprakk í loft upp eftir að hafa fengið planka í gegnum rúðuna. Þetta leit út eins og það ætti heima í allt annarri mynd. Kannski Transporter? Engu að síður þá fannst mér þetta vera eitt af mörgum merkjum um það að bræðurnir eru ekki sérfræðingar í hasardeildinni. Það breytir samt ekki miklu, því þeirra hæfileikar eru gríðarlega efnilegir. Meira að segja hafa þeir mjög föst tök á leikurunum sínum, og það er með ólíkindum hvernig þeir komast upp með sum samtölin án þess að þau séu kjánaleg. Ethan Hawke er virkilega fínn, Dafoe flottur og Sam Neill virðist njóta sín í botn. Claudia Karvan og Isabel Lucas eru einnig hörkugóðar í sínum hlutverkum þótt maður hefði viljað sjá aðeins meira af þeim.
Ef út í það er farið hefði Daybreakers klárlega mátt vera lengri. Hún er mjög straightforward (en sem betur fer ekki formúlubundin) á þessum 90 mínútum þótt ég gæti ímyndað mér alls kyns möguleika með þennan efnivið. Ég ætla mér samt ekki að kvarta því myndin á hiklaust skilið góð meðmæli og aðstandendur eiga jafnvel skilið klapp á bakið fyrir að prófa eitthvað nýtt með vampírur sem loks er hægt að kalla töff aftur.
7/10
Költ-status? Já takk!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei