Aðalleikarar
Pleasantville er frábær skemmtun. Handritið er ótrúlega frumlegt þótt það minni stundum á The Truman Show en myndin er samt allt öðruvísi. Þetta er fyrsta mynd sem Gary Ross leikstýrir og gerir hann það næstum gallalaust enda er hann líka ábyrgur fyrir handritinu. William H. Macy kemur hér aftur á óvart og Jeff Daniels leikur líka ágætlega. Myndin minnir á söguna um Höggorminn í Paradís og sýnir á skoplegan hátt hversu fáranlegur Ameríski Draumurinn er. Ég er alveg á því að þetta er ein af frumlegasta myndum í ár og að hún veldur ekki vonbrigðum
David er að búa sig undir að fara að horfa á Pleasantville maraþonið. Jennifer systir hans er að búa sig undir að fara á stefnumót með aðal kvennagullinu úr skólanum. Áform þeirra stangast þannig á. Þau fara að rífast og afleiðingin er sú að fjarstýringin brotnar. Þá bankar upp á undarlegur viðgerðamaður sem er með fjarstýringu og segir hana vera betri. Þegar hann er farinn ýtir David á hana. Veit hann og Jennifer ekki af sér fyrr en þau eru stödd inni í þættinum og heita þau þar Bud Parker og Mary Sue Parker. Þátturinn er um fullkomið samfélag og þar af leiðandi hundleiðinlegt. En brátt fer breytinga að verða vart. Fólk fer að byrja að sína lit í bókstaflegum skilningi og ýmsir siðir komast á. Verður þetta betra svona eða eru þau að eyðileggja allt hjá fólkinu. Mér finnst Pleasantville vera mjög góð mynd framan af og um miðbikið. Hún er fersk, frumleg, tækninni er mjög vel beitt og myndin er fyndin. En síðan þegar fer að síga á seinni hlutann verður hún svo yfirgengilega væmin og melódramatísk að það er ekki á það horfandi. Það sem reddar myndinni er hvað hún er vel leikin. Tobey Maguire og Reese Witherspoon eru mjög góðir sem krakkarnir en best eru þau Jeff Daniels sem herra Johnson og Joan Allen sem Betty Parker. Þau gera sitt frábærlega. Einnig er William H. Macy traustur sem endranær og takið þið eftir J. T. Walsh í sínu síðasta hlutverki. Fyndin mynd og vel leikin en sleppiði væmninni.
Kvikmyndin "Pleasantville" er kvikmynd sem kom mér umtalsvert á óvart er ég sá hana fyrst, því hún er einkar heilsteypt og vel gerð í alla staði. Enda eru flestir gagnrýnendur á því að hún sé réttilega meðal bestu kvikmynda ársins 1998 og var það endanlega sannað er hún hlaut þrennar óskarsverðlaunatilnefningar fyrir árið 1998; fyrir bestu búninga, bestu listrænu leikstjórnina og fyrir bestu tónlist. Leikstjóri myndarinnar er Gary Ross og er þetta leikstórnarfrumraun hans. Ross er m.a. þekktastur fyrir að hafa skrifað handritið að úrvalsmyndunum "Big" og "Dave", tveimur gamanmyndum sem nutu mikillar hylli á sínum tíma. Í "Pleasantville" viðheldur hann sínum gamansama tóni en þó má finna í henni hárbeitta ádeilu á samfélagið, ádeilu sem hverjum og einum er frjálst að túlka að vild. Hér segir af David Wagner (Tobey Maguire) sem er ungur maður sem hefur það áhugamál helst að fylgjast grannt með Pleasantville, bandarískum sjónvarpsþáttum frá sjötta áratugnum sem einhver sjónvarpsstöðin er að endursýna. Þættirnir gerast í bandarískum smábæ og eru dæmigerðir fyrir þá þætti sem nutu hvað mestrar hylli hjá bandarískum sjónvarpsáhorfendum á þessum tíma. Systir Davids, Jennifer (Reese Witherspoon), er hins vegar ekki jafn áhugasöm um þessa þætti og því hefur stundum komið til rifrildis þeirra á milli á hvað skuli horfa. Eftir eina slíka rimmu og heimsókn dularfulls viðgerðarmanns (Don Knotts) í kjölfarið gerast þau undur og stórmerki að þau systkinin fara í óviðbúið ferðalag sem skilar þeim til Pleasantville. Skyndilega eru þau stödd í þessum svarthvíta vinsæla sjónvarpsþætti! Koma systkinanna til bæjarins á síðan eftir að hafa afgerandi áhrif á bæjarbúa sem vita vart hvernig á að taka þeim nýtískustraumum sem systkinunum fylgja! Tobey Maguire er hér í sínu besta hlutverki til þessa (var líka mjög góður í "The Cider House Rules") og er hann sannfærandi og afar heillandi í hlutverki Davids og Bud Parker. Einnig er Reese Witherspoon góð í hlutverki Jennifer og Mary Sue Parker. En senuþjófarnir eru gæðaleikararnir William H. Macy og Joan Allen (sem bæði hafa verið tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik í aukahlutverki) sem fara á kosutm í hlutverkum Parker-hjónanna George og Betty Parker og eru stórfengleg í túlkun sinni. Sannkallaðir úrvalsleikarar sem fara alltaf á kostum. Meðal annarra leikara myndarinnar má nefna þau Jeff Daniels, Natalie Ramsey, Kevin Connors, Don Knotts og úrvalsleikarinn J.T. Walsh sem lést í febrúar 1998, skömmu eftir að hafa leikið í þessari kvikmynd og kvikmyndinni "The Negotiator" en hlutverk Big Bob er hans síðasta kvikmyndahlutverk þessa mikilshæfa gæðaleikara sem lést langt um aldur fram og verður sárt saknað í nánustu framtíð. En semsagt; "Pleasantville" er sannkölluð úrvalsmynd sem vert er að mæla með einkum vegna sannkallaðs gæðaleiks, afbragðsgóðra tæknibrellna, fallegra sviðsmynda og einkar góðs handrits. Ég gef "Pleasantville" þrjár og hálfa stjörnu og mæli ég eindregið með henni við þá sem ekki hafa séð hana. Afbragðsgóð kvikmynd við allra hæfi!!
Vönduð mynd sem fjallar um tvo unglinga úr nútímanum sem lenda inn í svarthvítum sjónvarpsþætti frá sjötta áratugnum. Þau smellpassa ekki beint inn í þetta nýja umhverfi því að þar eru allir barnalegir og saklausir. Með tímanum breytir þó nærvera krakkanna því og setur þennan áður "fullkomna" heim í mikið uppnám. Tæknibrellur eru notaðar á mjög sérstakan hátt í myndinni þannig að sumir hlutir í umhverfinu eru í lit en aðrir eru svarthvítir. Áhrifin sem þetta nær fram eru meiri en ég hefði getað ímyndað mér og gerir þessa mynd að veislu fyrir augað. Það eru mörg atriði sem eru fyndin en söguþráðurinn býr yfir gífurlegri dýpt sem maður á stundum erfitt með að átta sig á og það má vissulega segja að myndin sé líka dramatísk. Að lokum má ekki gleyma að minnast á leikarana en þeir standa sig alveg fullkomlega, sérstaklega Tobey Maguire sem leikur einn af krökkunum. Góð mynd fyrir þá sem eru að leita sér að innihaldsríkri afþreyingu.