Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Zodiac 2007

Frumsýnd: 18. maí 2007

There's more than one way to lose your life to a killer

157 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 90% Critics
The Movies database einkunn 79
/100

Raðmorðingi í San Fransisco ögrar lögreglunni með bréfum og dulmálsskilaboðum. Fylgst er með rannsóknarlögreglumönnum og fréttamönnum í þessari mynd sem er lauslega byggð á sannri sögu frá áttunda áratug síðustu aldar. Ákaft er leitað að morðingjanum og menn fá sífellt meiri þráhyggju yfir málinu. Myndin er byggð á bók Robert Graysmith og í... Lesa meira

Raðmorðingi í San Fransisco ögrar lögreglunni með bréfum og dulmálsskilaboðum. Fylgst er með rannsóknarlögreglumönnum og fréttamönnum í þessari mynd sem er lauslega byggð á sannri sögu frá áttunda áratug síðustu aldar. Ákaft er leitað að morðingjanum og menn fá sífellt meiri þráhyggju yfir málinu. Myndin er byggð á bók Robert Graysmith og í myndinni er sjónum beint sérstaklega að lífi og störfum lögreglumannanna og fréttamannanna. Robert Graysmith er skomyndateiknari sem vinnur fyrir dagblaðið The San Fransisco Chronicle. Óvenjuleg nálgun hans fer í taugarnar á Paul Avery, fréttamanni sem lætur áfengisdrykkju hafa skaðleg áhrif á starf sitt. Þeir tveir verða vinir og tengjast í gegnum sameiginlegt áhugamál; Zodiak morðingjann. Graysmith verður sífellt helteknari af málinu, en líf Avery hringsnýst meira og meira inn í áfengisvímu. Eftirgrennslan Graysmith leiðir hann inn á slóð David Toschi, rannsóknarlögreglumanns sem hefur hingað til ekki náð að leysa málið; Sherwood Morrill, rithandarsérfræðings; Linda del Buono, fanga sem þekkti eitt af fórnarlömbum Zodiak morðingjans; og fleiri. Atvinna Graysmith, eiginkona og börn, lenda öll í öðru sæti þegar Graysmith verður sífellt ákveðnari í að ná morðingjanum.... minna

Aðalleikarar

Frábær mynd
Zodiac er alveg mögnuð mynd frá snilldarleikstjóranum David Fincher. Byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá rannsókn á raðmorðum í San Francisco borg á hippatímanum og eitthvað eftir það. Mjög sniðug mynd og dælir í mann upplýsingum nánast stanslaust allan tímann sem virkar pínu ruglningslegt við fyrsta áhorf en þegar maður sér hana aftur kemst maður alveg inn í atburðarrásina. Zodiac er annars alveg glæsilega vel leikin og að mínu mati stendur Robert Downey Jr. alveg upp úr, hann bara leikur svo skemmtilega persónu með svo eftirminnilega frasa. Jake Gyllenhaal er einnig fínn þó að hann var nú betri í Donnie Darko að vísu, já. Mark Ruffalo leikur löggu mjög vel og hinn ágæti leikari Elias Koteas spilar lítið en mikilvægt hlutverk. Zodiac verður pínu langdregin seinni partinn en á móti því kemur hvað hún verður um leið djúp og áhugaverð. Mér finnst það gefa henni vissan sjarma að hafa lagið Hurdy Gurdy Man með Donovan í upphafi og svo alveg undir lokin. Semsagt, frábær mynd og eina ástæðan fyrir því að ég gef henni ekki alveg fullt hús er sú að mér finnst hún þrátt fyrir allt alls ekki eins góð og Fight Club sem er ennþá að mínu mati langbesta mynd sem David Fincher hefur gert.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fincher er maðurinn
Það má eiginlega segja það að Zodiac sé fremur straightforward upplýsingarþriller, og í raun gerir myndin fátt sem við höfum ekki séð einhvers staðar áður (þökk sé Oliver Stone). Samt sem áður er það eitthvað við leikstjórn Davids Fincher sem að gerir það að verkum að myndin nái að haldast athyglisverð og spennandi út lengdartímann, og jafnvel meira en það.

Stíll myndarinnar er virkilega flottur og einhvern veginn nær Fincher að koma sér að efninu með ferskum tón og góðri framvindu. Ég get náttúrlega endalaust tautað um það hversu hæfileikaríkur maðurinn er, enda færði hann kvikmyndaáhugamönnum tvær af bestu myndum síðasta áratugs (Se7en og Fight Club - fullaugljóst kannski). Stílfærð atriði eru sterk einkenni frá honum, en sömuleiðis er maðurinn þekktur fyrir góð vinnubrögð, vandaðan strúktúr og gott taumhald á leikurum, en það hreinlega geislar af fólkinu á skjánum í þessu tilfelli.

Myndin er örlítið í stíl við JFK eftir Oliver Stone, a.m.k. hvað uppbyggingu og efnisþróun varðar, þrátt fyrir að vera ekki alveg sama meistaraverkið og sú mynd (og hvergi eins hröð eða brjáluð í klippingum). En fyrir utan það að vera flott að útliti þá nær myndin að fljóta mjög vel. Myndin er bæði hæg í keyrslu og löng, og gætu mörgum þótt það einmitt vera galli. Handritið kemur samt mestöllum upplýsingum vel til skila og get ég ómögulega séð fyrir mér hvar hefði verið hægt að skera af lengdinni. Ef ég þyrfti að leggja fram einhverja kvörtun þá væri það þetta yfirdrifna upplýsingaflæði sem kom fyrir á köflum - en sem betur fer örsjaldan. Stundum var myndin að kortleggja fyrir manni svo mikið af nöfnum, staðsetningum eða atvikum að það liggur við að heilinn hafi átt í vanda með að taka inn svona mikið í einu. Samt geng ég ekki svo langt með að kalla myndina eitthvað flókna eða óskiljanlega, en hún getur orðið pínu troðin stundum og það hjálpar augljóslega að hafa heilastarfssemina vel virka þegar að horft er á myndina. Ég get líka vel ímyndað mér að hún þoli enduráhorf rosalega vel.

Leikurinn - rétt eins og leikstjórnin - er eitt lykilatriðið sem hækkar myndina upp um fjölmörg gæðastig. Ég gæti ekki nefnt einn sem ekki ætti hrós skilið. Jake Gyllenhaal er nokkuð lágstemmdur fyrsta klukkutímann eða svo, samt alls ekkert slæmur, en smám saman fer hann að sýna hversu ákaflega góður leikari hann er. Mark Ruffalo er líka alltaf bæði öruggur og sannfærandi og skilur einna mest eftir sig. Robert Downey Jr. stelur líka nokkrum senum sem fréttamaður í áfengis- og vímuefnaneyslu. Miðað við reynslu leikarans þykir mér hálf kaldhæðnislegt að sjá hann í þessu hlutverki, en þrátt fyrir það stendur hann sig virkilega vel. Öll aukahlutverk skila sér einnig glæsilega, alveg frá Chloë Sevigny í mikilvægu aukahlutverki til Brian Cox, sem hefur, því miður, furðulega lítinn skjátíma.

Rétt eins og má segja um nánast allar aðrar myndir Finchers, þá hefur Zodiac alveg gullfallega kvikmyndatöku. Það eru svo mörg íkonísk skot sem að þjóna kannski ekki miklum tilgangi (þ.e. skot sem að sýna ýmsar hliðar San Francisco borgar), en þau byggja upp svo öflugt andrúmsloft fyrir söguna.

Það er fátt við þessa mynd sem að grípur mann ekki. Umfjöllunarefnið er bæði áhugavert og spennandi, og tæknileg vinnsla sem og almenn umgjörð er stórkostleg. Zodiac er ekki bara besta myndin sem ég hef séð á árinu hingað til, heldur einnig einhver merkilegasta. Ef dramaþrillerar og sannsögulegt efni er eitthvað sem þig þyrstir í, þá er þessi mynd algjörlega málið.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Zodiac er mynd eftir engan annan en David Fincher, sem færði okkur myndir eins og se7en, fight club og svo panic room.

Myndin er líka prítt myndarlegum leikarahóp, þeim Jake Gyllenhaal, Mark Ruffalo, Robert Downey Jr., Brian Cox,John Carroll Lynch og svo Chloë Sevigny mikið af þessu eru mjög svo rísandi stjörnur.

Maður sér strax að myndin er rosalega vönduð og vel gerð, engin skal undra það því ekki er um nýgræðing að ræða í þessu fagi þegar kemur að myndinni um Zodiac sem var einn illræmasti fjöldamorðingi bandaríkjana í 20 ár.

Tónlistinn í myndinni er líka alveg frábær og yfirbragurinn rosalega flottur, myndin er mjög löng, en það hrjáði mig alls ekki þvi hún heldur sér við efnið allan tíman og hélt mér allavega algjörlega föstum á meðan myndinn var að rúlla gegn.

Ég las bókina áður en ég fór á myndina, og myndin heldur sér algjörlega við bókina, og svo aðrar heimildir svo myndin er rosalega nálægt því að vera hundrað prósent sannsöguleg, þó svo að sjálfsögðu er hitt og þetta sé kannski gerðist ekki.

En hún nær samt að halda sér á því sem gerðist og fer ekki að bulla eitthvað eins og gerist mjög oft við svona myndir.

Allir leikaranir sem komu nálægt þessari mynd eru algjörlega frábærir, fannst mér þá Mark Ruffalo standa upp úr sem lögreglustjórinn David Toschi. Hann var mjög góður og trúverðugur í sínu hlutverki, svo er að sjálfsögðu hann Jake Gyllenhaal sem rithöfundur myndarinnar Robert Gaysmith.

Mér fannst nú Robert Downey Jr mjög góður, samt þessi carater sem maður hefur séð hann leika rosalega oft, en eingu síður mjög góður.

Myndin fannst mér alveg ótrúlega góð og held ég að David Fincher getur verið rosalega stolltur af sínum ferli sem leikstjóri því hann hefur eingöngu fært okkur algjört gull hingað til.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Kvikmyndahúsin eru mjög dugleg við að gefa út myndir eins og Next eða Blades of Glory en þau eiga sér þann dásamlega eiginleika að fresta myndum eins og Zodiac ekki aðeins um einhverjar vikur heldur um nokkra mánuði. Líkurnar gætu bent til þess að Next og Blades of Glory munu græða meiri pening en hvað gerist þegar ég fæ loksins að sjá Zodiac, mynd sem ég hef beðið eftir lengi... hvert einasta sæti í salnum er upptekið. Ég var greinilega ekki sá eini sem vildi sjá Zodiac en biðin eftir henni var óþörf en ekki tilgangslaus því Zodiac er auðveldlega besta myndin sem ég hef séð á árinu hingað til. Myndin fjallar um Robert Graysmith (Jake Gyllenhaal) sem vinnur fyrir San Fransisco Chronicles á sjöunda áratugnum sem fer að rannsaka dularfull morð framin af Zodiac morðingjanum. Robert á þó ekki að vera að því þar sem starf hans er að teikna teiknimyndir fyrir dagblaðið en burtséð frá honum eru David Toschi (Mark Ruffalo) og Bill Armstrong (Anthony Edwards) lögreglumenn einnig að eyða öllum sínum tíma í Zodiac morðin og fréttamaðurinn Paul Avery (Robert Downey Jr.) sem vinnur fyrir sama fyrirtæki og Graysmith. Þetta er aðeins einföld lýsing á söguþræðinum, listinn af persónum í myndinni er mjög langur og hver einasta persóna hefur sitt mikilvæga hlutverki að gegna ekki aðeins í myndinni heldur einnig sögulega séð. Sögulega gildið í Zodiac er svakalegt, nánast hver einasta sena er merkt hvar hún gerist og hvenær, þetta gæti verið ein sögulega réttasta mynd sem gerð hefur verið. Ég hef heldur ekki séð svona mynd sem hefur jafn mikið af upplýsingum síðan JFK, Zodiac hefur í raun of mikið af upplýsingum, stanslaust þá er hver einasta sena að troða í manni nöfnum, stöðum, atvikum og tímasetningum sem þú þarft að muna eftir. Ég skil fólk sem segir að þetta sé of mikið og ég skil einnig gagnrýnina um að þessi mynd sé of löng því hún er mjög löng. Zodiac er upplýsingaflæði um upplýsingaflæði, alla myndina þá ertu að fylgjast með fólkinu sem er að rannsaka Zodiac morðin gegnum margra ára tímabil. Fyrir þá sem hafa engan áhuga á þessu tímabili né þessu efni eiga eftir að geispa en mér fannst einmitt Zodiac gera það svo vel að vekja áhugann minn því hraðinn á myndinni er býsna góður en ef þú missir af einhverjum mikilvægum punktum þá gæturu átt erfitt með að koma öllum upplýsingunum saman. Zodiac hefur stórt leikaralið, nöfn eins og Jake Gyllenhaal, Mark Ruffalo, Anthony Edwards, Robert Downey Jr, Brian Cox, Chloey Sevigny, Elias Koteas, Dermot Mulroney, Philip Baker Hall, James LeGros, Ione Skye og Adam Goldberg. Ekki endilega frægir leikarar sem allir þekkja en allt kunnugir leikarar en það sem er sérstakt er að hver einasti leikari, og þá sérstaklega aðalleikararnir leika hlutverkin sín alveg fullkomlega. Leikararnir einnig hjálpuðu mikið við að byggja upp ákveðinn fíling í myndinni, þessi sjöunda áratugs fílingur sem er skapaður gegnum leikarana, myndatökuna og tónlistina. Myndin er ekki þung í persónusköpun eða atburðarrás, hún er létt í anda og hefur mikinn húmor í sér en hefur alltaf stanslaust einhverskonar óhugnandi takt, þó yfirleitt undirliggjandi. Myndatakan er eins og í öllum David Fincher myndum framúrskarandi, stílseinkennin hans sjást gegnum myndina. Zodiac var öll tekin upp með Thompsons Viper stafrænum myndavélum og gæðin skáka hverja einustu kvikmynd sem ég hef séð tekna upp á filmu. Það sem mér finnst erfitt að dæma um er hvort það ætti að gefa Zodiac fullt hús eða ekki því það bendir til þess að Zodiac sé meistaraverk, aðeins tími getur sagt til um það en ég get allavega sagt það að Zodiac er einhver merkilegasta mynd sem ég hef séð í bíóhúsi. Ég ætla hinsvegar að gefa henni fjórar stjörnur, ég segi ekki að Zodiac sé meistaraverk en hún er allavega virkilega góð að mínu mati. Hún kemst upp með hluti sem flestar kvikmyndir komast ekki upp með og er gott dæmi um eðal kvikmyndagerð ekki aðeins tæknilega séð heldur frá öllum hliðum séð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn