Ice Age kom mér á óvart á sínum tíma, það var frumleg mynd með skemmtilegum karakterum og söguþræði sem var samsettur af skynsemi og alúð. Hér er engu líkara en að sálin sé horfin og ekkert eftir nema útlitið. Ice Age er kannski ekki hið dæmigerða peningaplokkandi framhald, en hún kemst ansi nærri því.
Nú þurfa vinir okkar að forða sér undan komandi flóði. Ísöldin virðist nálægt því að líða undir lok og gríðarlegt lón hefur myndast á bak við ísvegg sem gnæfir yfir dalnum þar sem fjöldamargar dýrategundir eiga heimkynni sín. Við botn dalsins ku vera örk mikil, sem getur bjargað þeim í hamförunum. Úr verður mikil og löng röð dýra, og loðfíllinn Manny og félagar fara með, þótt þeir eyði afar litlum tíma í að fylgja aðalhópnum.
Þess í stað slást þeir í för með Kvenloðfílnum Ellie sem heldur að hún sé pokarotta og bræðrum hennar, sem eru reyndar alvöru pokarottur. Þetta er mikill léttir fyrir Manny enda hélt hann að hann væri mögulega sá síðasti af sinni tegund. En það mun taka hann tíma að sannfæra Ellie (fyrirsjáanlega ljær Queen Latifah henni rödd sína) um að þau eigi saman.
Það er seint hægt að setja út á frammistöðu leikara eða teiknara en þeir skila allir sinni vinnu með sóma. Hér er það handritið sem bregst. Nánast allir brandararnir byggjast upp á fíflagangi, einhvers konar misþyrmingum á letidýrinu eða furðulegum uppátækjum pokarottanna og kvenloðfílsins sem líkir eftir þeim í einu og öllu. Það má segja að brandararnir með litla kvikindinu sem eltir hnetuna sína hafi smitast yfir í aðra þætti sögunnar og nú snúast þeir allir um hið sjónræna. Litla greyið sem eltir hnetuna á aftur mjög góða spretti hér, en spaugileg slys og ótrúlegar uppákomur sem persónurnar lenda í missa marks þegar þau verða með mínútu millibili. Það er ekki einn einasti brandari sem jafnast á við það þegar Diego reyndir að róa barnið í fyrri myndinni og að sama skapi nær ljúfsári undirtónninn aldrei sömu hæðum - hver gæti gleymt því þegar hellamyndirnar lifna við í Ice Age og segja söguna um fjölskyldu Manny? Það eina sem kemst nálægt því hér er þegar við sjáum endurlit Ellie frá æsku sinni, er hún kynnist pokarottunum sem urðu síðan bræður hennar. Á meðan ég naut þessa atriðis mest af allri myndinni, gerði vinur minn sér upp hrotur við hliðina á mér, sennilega af því að ekkert ægilega fyndið átti sér stað þarna í einhverjar mínútur.
Hins vegar var það svo að hann og hin þrjú sem voru með mér í bíó nutu myndarinnar umtalsvert meira en ég og vildu held ég öll spandera á hana 3 til 4 stjörnum. Ég læt mér nægja 2, hún er mjög flott og manni leiðist ekki sérstaklega en þegar svona myndir fara að reiða sig fremur á sjónræna brandara en vandlega úthugsaðan húmor er þróunin ekki á leið í rétta átt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei