Myndin fjallar í stuttu máli um geðlækni sem fær til meðferðar náunga sem kallar sig Prot og segist vera frá plánetu sem heitir K-PAX. Í fyrstu líta læknirinn og annað fólk á geðspítalanum á Prot sem hvern annan geðsjúkling en áður en langt um líður kemur í ljós að það er eitthvað sérstakt við hann. Jeff Bridges leikir geðlækninn og skilar hreint ágætri frammistöðu en senuþjófurinn er hinn frábæri leikari Kevin Spacey sem Prot. Ég hef dálítið blendnar tilfinningar gagnvart þessari mynd, hún er vissulega góð afþreying og inniheldur marga góða punkta en jafnframt því hefur hún holur í söguþræðinum sem er erfitt er að líta framhjá þegar til baka er horft. Það má deila um hversu stórar þessar holur eru, en þær fóru ekki mikið í taugarnar á mér fyrr en ég fór að hugsa út í þær eftir að hafa séð myndina og eyðilögðu því upplifunina ekki. Þegar öllu er á botninn hvolf vega kostir K-PAX upp galla hennar og er hún því vel þess virði að sjá. Hún er vel leikin, myndataka og tónlist eru fyrsta flokks ásamt því sem söguþráðurinn er ansi góður þegar hann nær sér á flug.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei