Ennio Morricone segist aldrei ætla að vinna aftur með Quentin Tarantino. Hið fræga ítalska tónskáld starfaði með leikstjóranum við Kill Bill-myndirnar og Inglorious Basterds en neitaði að semja tónlist fyrir Django Unchained.
„Ég myndi ekki vilja vinna með honum aftur, ekki við nokkurn skapaðan hlut. Í fyrra sagðist hann vilja vinna aftur með mér en ég sagðist ekki geta það vegna þess að hann gaf mér ekki nægan tíma. Þess vegna notaði hann bara lag sem ég hafði áður samið,“ sagði Morricone er hann ræddi við nemendur Luiss-háskólans í Róm.
Samkvæmt The Hollywood Report sakaði Morricone Tarantino um að nota tónlist í myndum sínum samhengislaust. „Það er ekki hægt að vinna neitt af viti með svoleiðis manni.“
Morricone er þekktastur fyrir tónlist sína við spaghettívestrana, þar á meðal The Good the Bad and the Ugly, og einnig við The Untouchables og Bulworth.
Hann hefur fimm sinnum verið tilnefndur til Óskarsins og árið 2007 hlaut hann heiðurs-Óskar fyrir framlag sitt til kvikmyndaheimsins.