Michael Douglas í Reykjavík!

Michael Douglas hefur verið fenginn til þess að leika fertugasta forseta Bandaríkjanna, Ronald Reagan, í kvikmynd um fund Reagan og fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, Mikhail Gorbachev, sem átti sér stað í Reykjavík árið 1986. Eins og flestir vita er um að ræða nokkurs konar sáttafund leiðtoganna (eða allavega tilraun til þess) á hápunkti kalda stríðsins. Myndin ber nafnið Reykjavik.

Orðið á götunni er að Mike Newell (mynd fyrir neðan) hafi verið fenginn til þess að leikstýra myndinni, en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa leikstýrt Harry Porter and the Goblet of Fire. Áður var talið að Ridley Scott myndi leikstýra myndinni, en hann ku framleiða myndina í staðinn. Hinn tiltölulega óþekkti Kevin Hood skrifar handritið, en fram til þessa hefur hann að mestu starfað í leikhúsbransanum.

Enn er óstaðfest hver muni leika Gorbachev, en ef vel tekst að ráða í hlutverk er ljóst að tökur munu hefjast á næsta ári. Reykjavik er með 10 milljónir dollara í budget. Ýmsir vefmiðlar halda því fram að Reykjavik gæti verið Óskarskandídat að ári – dæmi hver fyrir sig!