Dramatík og kómedía í Reykjavík – Fyrsta kitla!

Á dögunum kom út fyrsta kitlan úr nýrri íslenskri kvikmynd í fullri lengd, Reykjavík, eftir Ásgrím Sverrisson, en um er að ræða fyrstu leiknu kvikmynd Ásgríms í fullri lengd.

reykjavík

Í frétt Klapptré.is segir að Reykjavík sé dramatísk kómedía um sambönd og samskipti sem gerist í samtímanum. „Samband Hrings við Elsu hangir á bláþræði. Þau og ung dóttir þeirra hafa fundið draumahúsið sitt en plönin fara úr skorðum og Elsa vill endurskoða allt. Meðan Hringur reynir að átta sig á hvað fór úrskeiðis og hvort þau geti borið saman brotin, flækist hann inní óuppgerð fortíðarmál Tolla besta vinar síns með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Í kitlunni er í sjálfu sér ekki mikið að sjá, en nóg til þess að gera mann spenntan fyrir framhaldinu.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan:

Sömuleiðis er komið út fyrsta plakatið úr myndinni.

Reykjavik-TEASER-Poster-FINAL-SMALL

Með helstu hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Gríma Kristjánsdóttir.

Í öðrum hlutverkum eru meðal annars Hjörtur Jóhann Jónsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Björn Thors, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Alice Olivia Clarke, Friðrik Friðriksson og Inga María Eyjólfsdóttir.