MIB-3: Will Smith slæst við fisk


Stiklan í fullri lengd fyrir Men in Black 3 var að detta á netið, og sýnir okkur miklu meira efni en þessi stutta . Óhætt er að fullyrða að hún lofi ævintýri á stærri skala en fyrri myndirnar, með sama gamansama andrúmsloftinu. Sjáið myndbandið hér:

Myndin átti hörmulegt framleiðsluferli sem einkenndist af því að farið var af stað í upptökur á helmingi hennar án þess að vitað væri hvernig hinn helmingurinn myndi líta út. Fréttir bárust af því að Will Smith hefði haft framleiðsluna í höndum sér, breytt handriti eftir eigin höfði, og meira að segja látið rífa og endurbyggja sett til að mæta breyttum atriðum sem honum datt í hug. Allt þetta leiddi að sjálfsögðu til umtalsverðar peningaeyðslu, myndin kostaði yfir 200 miljónir Bandaríkjadala. Leikstjórinn Barry Sonnenfeld tjáði sig einmitt um þetta á dögunum:

„Við byrjuðum tökur vitandi það að annar og þriðji hluti handritsins væru ókláraðir. Var það ábyrgt? Svarið er, ef myndinni gengur vel, þá mun ég segja að sú hugmynd hafi verið algjör snilld. Ef myndin feilar, þá er öruggt að segja að hún hafi verið mjög heimskuleg.“

Ekki mjög upplyftandi orð og væntingum mínum fyrir myndina var stillt verulega í hóf, svona vandræði vísa sjaldan á gott. Þar með sagt verð ég að viðurkenna að stiklan lítur miklu betur út en ég hefði nokkurntímann þorað að vona! Það er eitthvað snilldarlegt við þennan risafisk (segi það sem lítill aðdáandi tölvuskrímsla), tímaflakksplottið virðist vera skemmtilega kjánalegt, ég dýrka retró lúkkið og sérstaklega geimverurnar sem líta út fyrir að vera úr upprunalegu Star Trek þáttunum. Þá smellpassar Josh Brolin í hlutverk K, þó að í rauninni sé hann alltof gamall til þess að leika yngri útgáfu af Tommy Lee Jones árið 1968. Eins og stiklan bendir reyndar á.

Það er helst að maður sakni Rip Torn sem sennilega var látinn fara eftir hann tók upp á því að gera tilraun til bankaráns 78 ára gamall, haugdrukkinn með haglabyssu (sagðist síðar hafa ruglast á bankanum og heimili sínu). Emma Thompson ætti að verða ágætis eftirmaður hans. Þá er einnig skrýtið að ekkert sjáist til nýliðanna Alice Eve og hins nýsjálenska Jemaine Clement, sem mun fara með hlutverk illmennis myndarinnar. Þá má ekki gleyma því að framleiðslan á fyrri MIB myndunum gekk víst andskoti illa líka, – og sú fyrsta heppnaðist allavega vel þrátt fyrir það.

Hvernig leggst myndin í lesendur? Er réttlætanlegt að vera hóflega bjartsýn eða stefnir þetta í stórslys á borð við Wild Wild West?