Í viðtali við Collider.com sagði, Michael De Luca, einn framleiðandinn hjá Marvel að framleiðslan á Ghost Rider 2 (sem mun líklegast bera heitið Ghost Rider: Spirit of Vengeance) væri komin ansi langt á leið. Hann tók það skýrt fram að Mark Steven Johnson – leikstjóri fyrri myndarinnar – myndi ekki snúa aftur. Í staðinn mun David Goyer setja á sig leikstjórahúfuna. Fyrir þá sem ekki vita þá er Goyer venjulega handritshöfundur, en hann hefur leikstýrt nokkrum myndum, eins og t.d. Blade: Trinity og The Unborn. Það kannski segir eitthvað um hvernig GR2 verði, hver veit?
Engu að síður þá er búið að staðfesta það að Nicolas Cage endurtaki hlutverkið. Það kæmi sjálfsagt ekki annað til greina. Hann er sagður vera gallharður aðdáandi myndasagnanna og skilst mér m.a.s. að hann sé með Ghost Rider tattú á öðrum handleggnum. Eva Mendes, sem nýlega lék á móti Cage í annað sinn í The Bad Lieutenant, mun annars ekki endurtaka sína rullu.
Það fóru sögusagnir af stað um að Ghost Rider 2 verði bönnuð innan 17 ára í bandaríkjunum. Goyer gaf allavega í skyn að þessi yrði mun grófari og ljótari heldur en hin. De Luca segir hins vegar að myndin verði PG-13, alveg eins og fyrri myndin. Hann bætti því síðan við að myndin verði tekin upp með tillit til 3D-tækninnar, eins og hér um bil allar stórmyndir núorðið.
Tökur hefjast seinnipartinn á þessu ári.

