Einungis degi eftir að stutt og stórflott stikla fyrir nýja geimhrollvekju Ridley Scotts, Prometheus, lenti á vefnum, hefur glæný og stærri stikla fyrir myndina skotið upp kollinum. Vægast sagt þá veldur nýja stiklan engum vonbrigðum og gefur okkur ennþá meira af því sem við þráum að sjá í sumar. Það er ljóst mál að þetta verður bíóupplifun sem mun fá marga til að svitna af ótta og spennu:
Eins og sést í stiklunni er meira í henni af Íslandi en áður (nánar tiltekið Dettifoss helst, en einnig fleiri staðir), og er mun meiri ráðgátu fílingur yfir þessu öllu saman. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hversu áhrifarík markaðsetning myndarinnar er og langar mig enn meira með hverjum degi að frysta mig þar til myndin lendir í bíóhúsum.
Eins og ég tók fram í gær þá virðist myndin alltaf stærri og stærri því meira sem maður sér úr henni og persóna Michael Fassbenders lýsir þessu best sjálfur í stiklunni: „Big things have small beginnings.“ Vonandi hefur kappinn rétt fyrir sér með lokavöruna.
Er það bara ég eða er þessi ræma orðin mest spennandi mynd sumarsins á eftir The Avengers? Og til að krydda örlítið upp á umræðuna: hver er uppáhalds Alien-myndin ykkar og hvers vegna?