Framleiðendur Brodway smellsins Mean Girls, tilkynntu í gær að þessi Tony verðlaunaða uppfærsla yrði löguð að hvíta tjaldinu fyrir Paramount Pictures. Söngleikurinn er byggður á samnefndri kvikmynd frá árinu 2004.
„Ég er mjög spennt að færa Mean Girls aftur upp á hvíta tjaldið,“ sagði Tina Fey, sem skrifaði handrit kvikmyndarinnar og leikhúsuppfærslunnar, í yfirlýsingu. „Það er búið að vera mjög gefandi að sjá hvaða þýðingu bæði kvikmyndin og söngleikurinn hafa haft fyrir áhorfendur. Ég hef eytt sextán árum af lífi mínu með þessum persónum núna. Þær eru minn Marvel heimur, og ég ann þeim heitt.“
Forstjóri Paramount sagði: „Við erum mjög spennt að færa þetta þekkta verk aftur á stóra tjaldið, í söngleikjastíl, með okkar frábæru kvikmyndagerðarmönnum.
Einnig var þess getið í tilkynningu að framleiðendur stefndu að því að færa söngleikinn á fjalirnar í London West End á næsta ári.
Auk Mean Girls er fjöldi annarra söngleikja á leið í bíó. Þar má nefna West Side Story, The Prom, In the Heights, Little Shop of Horrors, Come From Away og Sunset Boulevard. Nýjasta myndin af þessari gerð, Cats, floppaði illa í miðasölunni og hjá gagnrýnendum, en kostnaður við gerð hennar var 100 milljónir Bandaríkjadala.