Meðal nýstárlegra sérviðburða sem boðið verður upp á á Alþjóðlegu
kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í haust er skemmtilegt samspil kvikmynda og matar
í nýjum flokki sem ber yfirskriftina Matur og myndir og er hann unninn í
samstarfi við Slow Food, sem eru samtök áhugafólks um mat og umhverfisvernd.
Á
hátíðinni, sem haldin verður í Reykjavík dagana 17.-27. september nk., verða af
þessu tilefni sýndar þrjár kvikmyndir sem allar snúast um mat þó með ólíkum
hætti sé. Ennfremur verður efnt til spennandi sérviðburðar í tengslum við
sýningu myndanna, Eldað í anda myndar, sem styðst við megin skilaboð kvikmyndar
sem verður sýnd á undan matnum. Sá viðburður verður haldinn 20. september á Dill
í Norræna húsinu. Borðapantanir og frekari upplýsingar í síma 552 1522 eða
dillrestaurant@dillrestaurant.is.
Þá mun Dill bjóða upp á sérstakan hádegismatseðil alla daga hátíðarinnar, þar
sem íslenskt hráefni er matreitt í anda Slow Food hugmyndafræðinnar.
Loks verður sett upp glæsileg ljósmyndasýning í Norræna húsinu með myndum
eftir kanadíska ljósmyndarann Diana Shearwood, sem ber yfirskriftina „Behind The
Mall“, þar sem skemmtilegu sjónarhorni er brugðið á iðnvæðingu matarmenningar
nútímans. Semsagt augnakonfekt og bragðlaukadekur í senn á RIFF 2009!

