Marvel goðsögnin Stan Lee látinn

Teiknimyndahöfundurinn Stan Lee er allur, 95 ára að aldri. J.C. Lee dóttir hans staðfesti það við fjölmiðla fyrr í dag. Á MovieWeb var sagt að sjúkrabíll hefði komið að heimili Lee í Hollywood Hills snemma í morgun, og farið með hann í flýti á Cedars-Sinai sjúkrahúsið. Lést Lee stuttu eftir komuna þangað.

Lee stofnaði Marvel Comics teiknimyndasögurisann ásamt félaga sínum Jack Kirby árið 1961. Fyrstu sögurnar fjölluðu um Hin Fjögur fræknu, eða The Fantastic Four, en seinna bættust við aðrar persónur eins og Spider-Man, Black Panther, The Incredible Hulk, X-Men, Iron Man og The Avengers.

Undanfarið ár hafði verið nokkuð erfitt fyrir Lee. Hann hætti nýlega að koma fram opinberlega, en hann er sagður hafa gert allt sem hann gat fyrir aðdáendurnar, og þessvegna haldið áfram nánast fram í andlátið að vinna.

Undir lokin voru það ýmsir kvillar sem drógu hann til dauða, þar á meðal lungnabólga, samkvæmt MovieWeb.

Lee, sem hét fullu nafni Stanley Martin Lieber, fæddist 28. desember árið 1922 í Manhattan í New York. Foreldrar hans voru rúmenskir gyðingar og innflytjendur að nafni Celia og Jack Lieber. Hann á einn yngri bróður, Larry Lieber.

Lee hreifst snemma af bókum og kvikmyndum, einkum með Errol Flynn í aðalhlutverkinu.

Stan Lee fékk starf árið 1939 sem aðstoðarmaður hjá Timeley Comics deild teiknimyndasöguarms Martin Goodman fyrirtækisins, sem síðar sameinaðist Marvel.

Eins og aðdáendur Marvel kvikmynda vita þá hefur Stan Lee komið fram sem gestaleikari í öllum Marvel Comics Universe kvikmyndunum, og mun líklegast sjást í síðasta skiptið í næstu Spider-Man mynd, Spider-Man: Far From Home, sem frumsýnd verður á næsta ári.