Þónokkuð verður um frumsýningar á nýjum myndum og þáttum sem gerðir verða eftir sögum hrollvekjumeistarans Stephen King í ár.
Þar má nefna fyrst nefna sjónvarpsþættina Under the Dome sem CBS sjónvarpsstöðin mun byrja að sýna í júní nk. en þeir eru byggðir á samnefndri sögu King.
Þættirnir gerast í ekki svo mjög fjarlægri framtíð og fjalla um íbúa smábæjarins Chester´s Mill í Maine ríki. Þau eru skyndilega aðskilin frá umheiminum með dularfullri og órjúfanlegri „hindrun“, sem umkringir bæinn þannig að enginn kemst í burtu. Eftir því sem mannlífið í bænum byrjar að hrynja saman að innan vegna ofsahræðslu íbúanna þá reynir lítill hópur manna að viðhalda friði og reglu, um leið og hann reynir að komast að því afhverju þessi hindrun er komin upp og hvernig er hægt að komast í gegnum hana.
Hinn geðþekki og mjög svo upptekni leikari Stephen Lang leikur í A Good Marriage
Þá má nefna myndina eftir sögunni Carrie, með Chloë Grace Moretz í titilhlutverkinu, sem við höfum sagt frá hér á síðunni, og kemur í október. Í þriðja lagi er það A Good Marriage, en þau Joan Allen, úr The Bourne Legacy og Anthony Lapaglia úr sjónvarpsþáttunum Without a Trace, leika aðalhlutverkin í þeirri King mynd.
Nýjasta viðbótin í leikarahópinn í A Good Marriage er sjálfur Stephen Lang úr Avatar og Terra Nova sjónvarpsþáttunum.
A Good Marriage fjallar um hjón, en eiginkonan, sem Allen leikur, kemst að því að maðurinn, sem Lapaglia leikur, hefur lifað leynilegu lífi utan hjónabandsins sem gæti gert hann meðsekan í grimmilegu mannráni. Lang leikur síðan rannsóknarlögreglumann á eftirlaunum sem er staðráðinn í að leysa málið. Aðrir leikarar eru Theo Stockman, Pun Bandhu og Timothy J. Cox.
Lang sást síðast í spennutryllinum Pawn eftir David A. Armstrong, og mun sjást víða annars staðar á næstunni. Hann leikur t.d. ásamt Luke Hemsworth í ástralska stríðsdramanu The 34th Battalion, og mun leika í hefndarmynd Gina Carano In the Blood ásamt Danny Trejo.
Þá kemur hann fram í endurgerð hinnar sígildu hrollvekju The Monkey’s Paw, ásamt fleiri myndum. Nóg að gera hjá karli.