Þá geta menn hætt að velta vöngum yfir hver muni leika Lisbeth Salander í bandarískri útgáfu Millennium myndanna, sem gerðar eru eftir bókum Stieg Larsons. Það er nýliðinn Rooney Mara sem hreppt hefur hnossið, en hún mun leika í myndunum á móti James Bondaranum Daniel Craig, sem mun leika rannsóknarblaðamanninn Mikael Blomkvist. Fyrsta myndin mun heita The Girl With the Dragon Tattoo, sem hét á íslensku, Karlar sem hata konur.
Mara er 25 ára gömul.
Leikstjóri myndarinnar er David Fincher, en hann réð Mara einnig í myndina The Social Network, sem fjallar um samskiptavefinn Facebook, og er væntanleg í kvikmyndahús 1. október nk.
Mara hefur leikið áður í ER og Law & Order: Special Victims Unit, auk þess sem hún lék í A Nightmare on Elm Street endurgerðinni, ásamt íþróttagamanmyndinni The Winning Season, sem væntanleg er á markaðinn.
Tökur á The Girl with the Dragon Tattoo hefjast í Svíþjóð í næsta mánuði og stefnt er að frumsýningu 21. desember 2011.
Hvað finnst svo mönnum um þetta val Finchers? Er hún rétt í hlutverkið?