Það er nóg að gera hjá kvikmyndatónskáldinu þekkta Hans Zimmer – meira en nóg svo ekki sé meira sagt. Zimmer, sem er margverðlaunað tónskáld og hefur meðal annars hlotið ein Óskarsverðlaun, semur tónlistina fyrir sumarmyndirnar Man of Steel og The Lone Ranger og haustmyndirnar Rush og Winter´s Tale. Nú hefur enn eitt verkefnið bæst á verkefnalista tónskáldsins, en það er að gera tónlist fyrir nýjustu mynd Shame og Hunger leikstjórans Steve McQueen, hina sögulegu Twelve Years a Slave.
Myndin er byggð á sjálfsævisögu Solomon Northup frá árinu 1853 og segir frá Northup, leikinn af Chiwetel Ejiofor, sem var rænt og hnepptur í þrældóm, og í framhaldinu þurfti hann að þola grimmdarlega meðferð hjá ýmsum eigendum sínum.
Chiwetel Ejiofor
Auk Ejiofor leika í myndinni gæðaleikarar eins og Michael Fassbender, Benedict Cumberbatch, Paul Giamatti, Paul Dano, Alfre Woodard, Garret Dillahunt, Lupita Nyong’o, Adepero Oduye, Scoot McNairy, Sarah Paulson, Michael K. Williams, Chris Chalk, Dwight Henry, Quvenzhane Wallis og Brad Pitt.
Myndin verður frumsýnd næsta vetur, nánar tiltekið 27. desember nk.