Mætir Bourne 5 á SuperBowl?

Bandaríkjamenn bíða nú spenntir eftir Ofurskálinni svokölluðu, eða Super Bowl, úrslitaleiknum í ameríska fótboltanum. En það er ekki bara sparkið sjálft sem menn bíða eftir, heldur eru margir einnig spenntir fyrir auglýsingunum sem frumsýndar verða í auglýsingahléum leiksins, en þær þykja jafnan hin besta skemmtun.

matt damon bourne

Á meðal auglýsinganna eru ávallt stiklur úr nýjum bíómyndum, og nú er búist við að fyrsta stikla úr nýjustu Bourne myndinni muni líta dagsins ljós á Super Bowl.

Myndin, sem er með Matt Damon í aðalhlutverkinu, gengur enn undir vinnuheitinu Bourne 5, en líklega fá menn að vita endanlegt nafn þegar stiklan verður sýnd nú á sunnudaginn í auglýsingahléi leiksins.

Þó ekki sé vitað 100% hvort að af þessu verður, þá gaf rithöfundurinn Eric Van Lustbader, sem tók við Bourne seríunni frá Robert Ludlum, það sterklega í skyn á Facebook síðu sinni, áður en hann eyddi færslunni: „ATHUGIГ Fyrsta stiklan úr nýju Bournu myndinni verður sýnd í auglýsingahléi Super Bowl. Ég býst við að þá verði einnig ljóstrað upp um titil myndarinnar ( Ég veit titilinn, en má ekki segja ). Þannig að fylgist með þann 7. febrúar. Ég amk. get ekki beðið!!!“

Svo mörg voru þau orð, en ekki er vitað afhverju hann eyddi færslunni.

Áður hafði hann skrifað á Facebook þann 18. janúar sl. „Nýja Jason Bourne bókin mín kemur út í júní, og kallast The Bourne Enigma.“Það er búið að skrifa 12 bækur um Bourne, og öll heitin sem ekki hafa enn verið notuð, koma til greina í Bourne 5.“

Aðrar myndir sem verða auglýstar á Super Bowl eru samkvæmt Hollywood Reporter, líklega: Teenage Mutant Ninja Turtles: Out of the Shadows, Deadpool ( sem á að vera mjög áberandi í kringum leikinn ) The Jungle Book, Captain America: Civil War, Zootopia, Alice Through the Looking Glass, Finding Dory, Rogue One, The Huntsman’s Winter War og Neighbors 2: Sorority Rising.