Madonna fær misjöfn viðbrögð við W.E.

Ný kvikmynd poppsöngkonunnar, leikstjórans og leikkonunnar Madonnu, W.E., var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í gær, fimmtudag. Viðtökur hafa verið blendnar, en fyrstu umfjallanir um myndina eru allt frá því að segja hana miðlungsgóða í að segja hana lélega.

Myndin er lauslega byggð á lífi hinnar fráskildu Wallis Simpson, en ástarævintýri hennar með Eðvarði III Bretakonungi, leiddi til þess að hann sagði af sér krúnunni.

Madonna hefur sagt að hún hafi verið heilluð af sögunni í þónokkurn tíma, og velt því fyrir sér afhverju maður færir svona miklar fórnir fyrir ástina.

Andrea Riseborough leikur Simpson.

Breska dagblaðið Guardian var ekkert að skafa utan af því og gaf myndinni eina stjörnu af fimm mögulegum. Aðrir gagnrýnenendur hafa ekki verið eins dómharðir, þó að tónninn sé almennt frekar neikvæður í garð myndarinnar. Ein vefsíðan skaut á leikkonuna, að kannski væri kominn tími til að hin 53 ára gamla söngkona, segði af sér sem kvikmyndagerðarmaður.

Todd McCarthy hjá Hollywood Reporter var ögn jákvæðari: „Þessi önnur mynd Madonnu sem leikstjóra er ánægjuleg fyrir augu og eyru, en skortir allt fyrir sálina.“

Mark Adams, aðalgagnrýnandi Screen Daily segir: „Madonna ætlar sér stóra hluti, og fjallar um ást, frægð, misnotkun og vonbrigði, og hittir oft naglann á höfuðið — en stundum ekki — en býður alltaf upp á myndskeið sem eru fallega tekin og sviðsett.“
Adams segir einnig að frammistaða Riseborough í aðalhlutverkinu sér „nokkuð stórkostleg“.

The Daily Telegraph gefur W.E. þrjár stjörnur af fimm mögulegum, og Baz Bamigboye hjá the Daily Mail hrósaði myndinni: „Það mun fullt af fólki hata þessa mynd, bara af því að hún er gerð af Madonu,“ skrifar hann. „En ef fólkið myndi horfa án þess að vita hver leikstýrði,þá myndi það verða undrandi. Þeim gæti meira að segja fundist myndin skemmtileg [….]“

Myndin var gerð fyrir 15 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt Reuters, og verður frumsýnd í Bandaríkjunum og Kanada í desember nk.