Lúxus að fresta tökum á Ég man þig

Óskar Þór Axelsson leikstjóri íslensku hrollvekjunnar Ég man þig sem frumsýnd verður í vikunni, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að tökur myndarinnar hafi ekki gengið þrautalaust fyrir sig, meðal annars hafi þær frestast, en það hafi hinsvegar á endanum reynst vera lúxus, eins og hann orðar það.

Myndin er aðallega tekin upp bæði á Ísafirði, Hesteyri og í Reykjavík, sem og í drungalegu gömlu húsi í Grindavík. Tökur hófust haustið 2015 en Óskar segir í samtalinu að tökurnar hafi síðan tafist af því að  einn aðalleikaranna, Jóhannes Haukur Jóhannesson, hafði landað hlutverki í bandarískri stórmynd og tökum þeirrar myndar hafi seinkað. „Var fljótlega orðið ljóst að Jóhannes myndi ekki losna fyrr en komið væri vor á Vestfjörðum og þurftum við því að bíða fram á haustmánuði 2016 til að fá vetrarumhverfið,“ segir Óskar í Morgunblaðinu.  „Ég er þeirrar skoðunar að þegar svona lagað gerist þá leiði það yfirleitt til jákvæðra hluta, og gefur oft tækifæri til að bæta myndina. Í þessu tilviki tókst okkur að klippa til heilmikið af því efni sem við höfðum tekið upp á Hesteyri áður en tökur hófust á atriðunum í Ísafjarðarsögunni. Ég gat því séð hvernig Hesteyrarhlutinn var að koma út og ráðist í ákveðna endurskoðun á handritinu. Frestunin reyndist því vera algjör lúxus og gerði okkur kleift að styrkja handritið og myndina töluvert.“

Drunginn kom á óvart

Eins og segir í Morgunblaðinu þá þurftu leikarar og tökulið meðal annars að dvelja á Hesteyri í vikutíma um hávetur. Komu þau sér fyrir í gömlum húsum þar sem hvorki var rafmagn né heitt vatn og ekki einu sinni síma- eða netsamband. Óskar segir að allir hafi vitað að vistin yrði erfið en drunginn á svæðinu hafi komið honum á óvart. „Ég hefði eflaust verið skíthræddur ef ég hefði verið þarna einn. Það kom líka í ljós að það voru fleiri á svæðinu en við héldum. Músagangur vakti fólk um miðjar nætur, og þegar horft var út í vetrarmyrkrið horfðu augu á móti. Það voru refirnir sem fylgdust með okkur.“

Óskar segir í samtalinu við Morgunblaðið að hann hafi viljað gæta þess að gera ekki formúlukennda hryllingsmynd. Hann langaði að nálgast efni bókarinnar af virðingu og koma til skila þeirri ónotatilfinningu sem Yrsa nær að miðla til lesandans. „Það er svo dæmigert að gera hryllingsmynd um ungt fólk sem er statt í drungalegum yfirgefnum kofa fjarri mannabyggðum. Ég vildi gera eitthvað fullorðinslegra en það og á sama tíma bera virðingu fyrir íslenskri hrollvekjuhefð. Við eigum töluvert af krassandi sögum, af tröllum, óvættum og útburðum – og í hverri sýslu eru til frásagnir af mórum.“