Emmy-tilnefnda leikkonan Katherine Helmond, sem er best þekkt fyrir leik sinn í gamanþáttunum bandarísku Who’s the Boss? og Löðri þar á undan, er látin, 89 ára að aldri. Hún lést á heimili sínu í Los Angeles þann 23. febrúar sl. Hún var með Alzheimer sjúkdóminn.
Leikkonan, sem átti fimm áratuga feril í skemmtanabransanum, lék ættmóðurina Jessica Tate í gamanþáttunum Löðri, eða Soap, sem sýndir voru við miklar vinsældir hér á Íslandi á árum áður, en með aðalhlutverk í þáttunum fór When Harry Met Sally leikarinn Billy Crystal.
Löður voru í sjónvarpi í Bandaríkjunum á árinum 1977 – 1981. Tate fékk fjórar Emmy tilnefningar fyrir hlutverk sitt í þáttunum.
Í Who´s The Boss lék Helmond hlutverk Mona Robinson, en þættirnir voru á dagskrá í Bandaríkjunum á árunum 1984 – 1992, og voru sömuleiðis mjög vinsælir hér á Íslandi. Hún fékk tvær Emmy tilnefningar fyrir frammistöðuna í því hlutverki.
Þá lék Helmond í sjónvarpsþáttunum Coach á árunum 1995 – 1997 og í Everybody Loves Raymond, á árunum 1996 – 2004.
Helmond fæddist á Galveston eyju í Texas fylki 5. júlí 1929. Hún var einkabarn Joseph og Thelma Helmond. Faðir hennar var slökkviliðsmaður og móðir hennar var húsmóðir. Foreldrar hennar skildu nokkrum árum eftir að hún fæddist, og hún var alin upp í ströngu rómansk – kaþólsku umhverfi, af móður sinni og ömmu.
Lék í Monty Python myndum
Auk þess að leika í sjónvarpi lék hún einnig á sviði, og var tilnefnd til Tony verðlauna árið 1973 fyrir leik sinn í leikriti Eugene O´Neill, The Great God Brown.
Hvað leik í kvikmyndum varðar þá starfaði Helmond mikið með Monty Python leikstjóranum Terry Gilliam, og lék stórt hlutverk í þremur mynda hans, Time Bandits (1981 ), Brazil ( 1985 ) og Fear and Loathing in Las Vegas ( 1998 ).
Ráðning Helmond í hlutverkið í Time Bandits var ekki hefðbundin, þar sem hún fékk hlutverkið eftir að upprunalega leikkonan, Ruth Gordon, fótbrotnaði þegar hún var við tökur á mynd eftir Clint Eastwood.
Í Brazil lék Helmond móður aðalpersónunnar sem Jonathan Pryce lék, sem var háð lýtaaðgerðum. Gillam er sagður hafa hringt í Helmond og sagt við hana: „Ég er með hlutverk handa þér, og ég vil að þú komir og leikir það, en þú munt ekki líta mjög vel út í því.“
Helmond lék síðan hlutverkið með grímu, sem olli því að hún fékk blöðrur á andlitið.
Leiklistin var Helmond alltaf kær, þrátt fyrir að erfiðleikar hefðu oft steðjað að . „Mér fannst ég blómstra þegar ég fékk tækifæri til að leika,“ sagði hún. „Þetta er búið að vera eins og frábært hjónaband sem gekk upp. Ég naut hverrar mínútu.“
Af öðrum verkefnum leikkonunnar má nefna leik í Overboard eftir Garry Marshall, og nú nýverið talaði hún fyrir Ford bílinn T Lizzie í Disney/Pixar teiknimyndunum þremur Cars.