Eins og við sögðum frá í morgun þá var Looper næst vinsælasta myndin í Bandaríkjunum um helgina. Fyrstu tölur benda nú til að myndin hafi verið enn vinsælli í Kína, og þénað meira þessa frumsýningarhelgi þar en hún gerði í Bandaríkjunum.
Það yrði þá í fyrsta skipti sem bandarísk stórmynd nær meiri tekjum í Kína en í Bandaríkjum á opnunarhelginni.
Looper er tímaferðalagstryllir með Joseph Gordon-Levitt og Bruce Willis í aðalhlutverkum, og er framleidd af kínverskum og bandarískum framleiðendum, og tekin að hluta til í Kína.
Samkvæmt frétt í The Guardian er bíómenning Kínverja í mikilli uppsveiflu og mörg þúsund bíóhús með mörgum sölum hvert, eru í byggingu. Það er þó mjög takmarkað hvaða erlendu myndir má sýna í landinu, og því fá þær myndir sem fá náð fyrir augum þeirra sem ráða þar bíómálum, mikla athygli og möguleika á mikilli aðsókn.
Looper kostaði 30 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu. Hún þénaði 21 milljón Bandaríkjadala í Bandaríkjunum um helgina, en í Kína á bilinu 23-25 milljónir dala. Það er því ástæða fyrir framleiðendur myndarinnar að kætast.