Aðstandendur nýju Johnny Depp og Armie Hammer ævintýramyndarinnar sem margir hafa beðið eftir, The Lone Ranger, tjalda greinilega ekki til einnar nætur.
Hammer, sem leikur titilhlutverkið, hinn grímuklædda löggæslumann The Lone Ranger, vonast eftir framhaldsmyndum, þó enn sé óvíst hvernig myndin muni falla í kramið hjá áhorfendum, enda verður hún ekki frumsýnd fyrr en á miðvikudaginn næsta, þann 3. júlí, bæði hér á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Leikstjóri myndarinnar er Gore Verbinski.
„Við skulum sjá til,“ segir Hammer í samtali við E-online fréttaveituna. „Það fer auðvitað allt eftir því hvernig þessi mynd gengur.“
Ruth Wilson, sem leikur kærustu The Lone Ranger, Rebecca, hefur staðfest, eins og Hammer, að aðalleikararnir hafi skrifað undir samning um að leika í nokkrum myndum. „Ég skrifaði undir samning um að leika í þremur myndum,“ sagði leikkonan breska.
„Þannig að ef að það verður gerð önnur mynd, þá væri frábært að taka þátt í því, en maður veit auðvitað aldrei.“
Johnny Depp hinsvegar hefur sagt að einungis sé um eina mynd að ræða hjá honum, í bili amk. „Ég held að þetta hafi verið einnar myndar samningur hjá mér,“ sagði hann.
„En ef þeir byrja að tala um framhald á þessari mynd, þá er ég tilbúinn í það.“
Smelltu hér til að skoða stiklu úr myndinni.