Wahlberg gerir grín að The Lone Ranger

Mark Wahlberg hefur gert grín að The Lone Ranger, sem hefur valdið miklum vonbrigðum í miðasölunni vestanhafs.

theloneranger-first

Í viðtali við LA Times gerði 2 Guns-leikarinn grín að kostnaði myndarinnar, sem Gore Verbinski leikstýrði.

„Þeir eru að eyða 250 milljónum dala í tvo náunga á hestbaki. Hvert hefur allur þessi peningur farið?“ sagði Wahlberg.

Hann bætti samt við að fjölmiðlar hefðu dýrar myndir á borð við The Lone Ranger undir smásjánni og væru fljótir að finna að þeim. „Það er fylgst mjög náið með okkur, miklu meira en áður.“

Wahlberg segir kvikmyndaver eyða of miklum pening í tæknibrellur. „Þau eru að eyða rosalega háum upphæðum í að draga blæju yfir augu áhorfenda með þessum tæknibrellu-myndum. Þetta er ekki lengur eins og með Jurassic Park þegar eitthvað nýtt og frumlegt var á seyði sem maður varð að sjá. Allar þessar „heimurinn er að farast“-myndir eru alveg eins.“