Live and Let Die óþokki látinn

Leikarinn og dansarinn Geoffrey Holder frá Trinidad, sem lék hinn gaggandi óþokka og Voodoo galdramann Baron Samedi í James Bond myndinni Live and Leet Die,  er látinn 84 ára að aldri. Holder var einnig sögumaður í mynd Tim Burton, Charlie and the Chocolate Factory.

holder

Holder, sem var mjög hávaxinn, eða 1,98 m á hæð, kom fyrst fram í hlutverki Samedi í House of Flowers, sem var Broadway söngleikur með karíbahafsþema. Persónan var byggð á þekktum voodoo-galdralæknaanda með sama nafni sem yfirleitt er með hauskúpuandlit og pípuhatt, og er þekktur fyrir ólæti, móðgandi framkomu og sviksemi.

Í Live and Let Die, sem var fyrsta mynd Roger Moore í hlutverki Bond, er Samedi fylgismaður Mr. Big / Kananga. Eftir að hann er skotinn, hendir Bond honum í líkkistu sem er full af eitruðum snákum. Samedi birtist síðan öllum að óvörum í lokaatriði myndarinnar, aftast í lest, þegar kreditlistinn byrjar að rúlla, og gefur þar með til kynna að hann hafi notað yfirnáttúrulegt afl sitt til að rísa upp frá dauðum, eða komast á ævintýralegan hátt, lifandi frá snákakistunni.

Holder lék einnig í Dagfinni dýralækni frá árinu 1967 og mynd Woody Allen frá 1972, Everything You Always Wanted to Know About Sex (But Were Afraid to Ask).

Holder fæddist í Trinidad, og var þekktur bæði sem dansari, sviðsleikari og danshöfundur. Hann var dansari við Metropolitan Opera Ballet í New York frá 1955-56, og vann Tony verðlaunin fyrir bestu búningahönnun og tónlistarstjórnun í sviðsverkinu Galdrakarlinum frá Oz þegar það var sett upp eingöngu með þeldökku leikurum undir titilinum The Wiz árið 1975. Hann varð þar með fyrsti þeldökki maðurinn til að fá verðlaunin í báðum þeim flokkum.

Holder lést á sunnudaginn í New York af völdum lungnabólgu. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Brodway leikkonuna Carmen de Lavallade, og son þeirra Leo.