Þegar ofurskrímslið Godzilla og risa-apinn King Kong voru síðast á hvíta tjaldinu fengum við að upplifa epískan bardaga þeirra tveggja, í kvikmynd leikstjórans Adam Wingard, Godzilla Vs. Kong. En núna hefur orðið breyting á, því í þetta skiptið, í kvikmyndinni Godzilla x Kong: The New Empire, hafa dýrin snúið bökum saman.
En eins og leikstjórinn, sem aftur er Adam Wingard, segir við kvikmyndaritið Empire þá eru þeir félagarnir, frægasti íbúi Höfuðkúpueyjar og kjarnorkuknúna eðlan, ekki beint neinir bestu vinir.
Eftir hrikaleg fyrri átök hinna tveggja risa þurfa Godzilla og King Kong að stilla saman strengi til að berjast gegn skelfilegri ógn sem útrýmt gæti bæði þeim og öllum öðrum á Jörðinni. ...
Nýr þrjótur
„Það er smá vopnahlé – Godzilla stjórnar yfirborðinu og Kong er í Holrýminu neðanjarðar (e. Hollow Earth),“ segir Wingard við Empire. „Þetta var ekki, hey hringdu í mig þegar eitthvað gerist, Kong. Og ég, Godzilla, kem til bjargar!“
En þegar ógn að utan, þrjótur af apa-kynþætti, Skar King, birtist verða fyrrum óvinirnir tveir að vinna saman – og úr verður mjög svo ólíkt tvíeyki á sögulegum stærðarskala. „Það er kannski best að lýsa sambandi þeirra eins og sambandi tveggja ólíkra löggufélaga eins og menn þekkja í löggumyndum,“ segir Wingard og nefnir spennumyndina Lethal Weapon sem eina af sínum uppáhaldskvikmyndum í þessum geira. „Ég sæki allltaf innblástur úr eitís tímanum. Það var gullöld svona kvikmynda.“
Oft misskilningur
Eins og Empire bendir á þá getur margvíslegur misskilningur komið upp á í samskiptum risanna, enda geta þeir ekki talað saman. „Það er fullt af misskilningi – samskipti þeirra eru ekki hrein og bein.“
Ásamt því að vinna saman þá er fleira að gerast hjá óvættunum tveimur. Wingard segir að Kong eigi í persónulegum vanda m.a. og Godzilla breytir um lit. „Þetta er hluti af æfingaprógramminu hans,“ segir Wingard um umbreytingu eðlunnar. „Ég er mjög hrifinn af Shaw Brothers slagsmálamyndum. Þær eru alltaf um: „Hér er risastór ógn, og þú þarft að gera alla þessa hluti til að keyra þig í gang þannig að þú getir mætt ógninni.““
Það er óhætt að segja að maður fái nóg fyrir peninginn í þessari nýju kvikmynd. „Þú færð að sjá margar ólíkar útgáfur af Godzilla,“ segir leikstjórinn að lokum.