Líffræðingur rannsakar dularfulla veröld

Leikkonan Natalie Portman fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Annihilation sem er byggð á samnefndri vísindaskáldsögu eftir Jeff VanderMeer. Það er Alex Garland sem leikstýrir myndinni en hann gerði síðast vélmennamyndina Ex Machina. Í gær var opinberuð ný stikla úr myndinni sem verður frumsýnd vestanhafs þann 22. febrúar næstkomandi. Með önnur helstu hlutverk fara Oscar Isaac, Tessa Thompson og Jennifer Jason Leigh.

Myndin fjallar um fjórar konur sem fara í rannsóknarleiðangur til Area X og eru þær allar sérfræðingar á sínu sviði. Portman fer með hlutverk líffræðings sem rannsakar þessa dularfullu veröld eftir að maðurinn hennar (Isaac) veikist alvarlega eftir að hafa farið þangað. Þessi veröld, sem stækkar með hverjum degi á jörðinni, er af öðrum heimi og gerir fólk á endanum vitstola.

Framleiðslufyrirtæki myndarinnar, Paramount Pictures, hefur tekið þá ákvörðun að sýna myndina einungis á streymiveitunni Netflix í flest öllum löndum. Ástæðan er sú að framleiðslufyrirtækið telur að myndin muni ekki ná mikilli aðsókn í kvikmyndahúsum á heimsvísu því hún sé með eindæmum ólík þeim kvikmyndum sem eru til sýninga nú til dags. Margir telja þetta vera slæma þróun og enn eitt skrefið í átt að einsleitum kvikmyndum á hvíta tjaldinu.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.