Leikstjóri The Wolfman biðst afsökunnar

Joe Johnston, leikstjóri The Wolfman, hefur beðið almenning afsökunnar á mynd sinni. Upprunalega átti leikstjórinn Mark Romanek (One Hour Photo) að vera maðurinn bakvið myndavélina en þremur vikum áður en tökur hófust yfirgaf hann verkefnið. Johnston var ráðinn með litlum fyrirvara og var afraksturinn heldur misheppnaður, enda fékk myndin vægast sagt slæma dóma og græddi einungis 60 milljónir á meðan kostnaðurinn bakvið hana var rúmar 150 milljónir.

Johnston, sem vinnur nú hörðum höndum að Captain America myndinni, segir í viðtali við CBM, „Ég hafði þrjár vikur til að undirbúa myndina. Það var hlægilega lítill tími til þess að púsla saman þessu brotna og ringlaða verkefni. Ég tók myndina að mér vegna þess að mig vantaði peninginn. Þetta var fyrsta skipti sem ég hef leyft peningavandamálum að ráða því hvað ég vinn við, og það er aldrei góð hugmynd. Framleiðslan var illa mönnuð, fólkið bakvið myndavélina var margt hvert vanhæft og rifrildi einkenndu starfið. Ég tek fulla ábyrgð á þessu lestaslysi.“

Leikstjórinn fullyrðir í lokin að næsta mynd hans, The First Avenger: Captain America, muni ekki hljóta sömu örlög. „Ég fékk þrjátíu vikur af undirbúningi fyrir Captain America. Ég er með lítinn en mjög sterkan og góðan hóp með mér sem og framleiðendur sem vilja hjálpa mér að gera góða mynd frekar en lélega mynd sem græðir pening.“

– Bjarki Dagur