Leikstjóri 'Searching for Sugar Man' látinn

malikSænski leikstjórinn Malik Bendjelloul, sem gerði m.a. margverðlaunuðu heimildarmyndina Searching for Sugar Man, er látinn aðeins 36 ára að aldri.

Lögreglan í Svíþjóð staðfesti þetta í dag, en vildu þó ekki greina frá dánarorsökum. Lögreglan vill þó koma því á framfæri að engin liggi undir grun vegna málsins.

Searching for Sugar Man hefur farið sigurför um heiminn og unnið til fjölda verðlauna, þar má helst telja Óskarsverðlaunin fyrir bestu heimildarmynd og áhorfendaverðlaunin á hinni virtu Sundance-kvikmyndahátíð. Bendjelloul ferðaðist til Suður-Afríku árið 2005 og heyrði sögur af Sixto Rodriguez. Þótti honum þetta vera ein besta saga sem hann hafði heyrt, og ákvað í kjölfarið að gera kvikmynd um leit sína að Rodriguez.

Hér að neðan má sjá viðtal við Bendjelloul og Rodriguez vegna myndarinnar, árið 2012.