Asif Kapadie, leikstjóri heimildarmyndarinnar Amy sem fjallaði um söngkonuna Amy Winehouse, ætlar næst að snúa sér að mynd um rokksveitina Oasis.
Kapadie verður framleiðandi myndarinnar en Mat Whitecross mun leikstýra.
„Oasis er án vafa ein af þessum klassísku bresku rokksveitum. Hún hefur selt 70 milljónir hljómplatna og haft mikil áhrif á tónlistarheiminn,“ sagði Kapadia.
„Mat á eftir að segja á sinn einstaka hátt frá leið einnar bestu rokksveitarinnar til frægðar,“ segir í frétt Contactmusic.
Oasis lagði upp laupana árið 2009. Heimildir NME.com herma að kvikmyndagerðarmennirnir hafi fengið óheftan aðgang að öllu sem tengist hljómsveitinni, þar á meðal myndefni sem ekki hefur verið birt opinberlega.