Kvikmynd Jóhanns verðlaunuð í Kanada

Kvikmyndin Last and First Men eftir Jóhann Jóhannsson hlaut á dögunum FIPRESCI verðlaunin á Festival du Nouveau Cinéma de Montréal í Kanada. Jóhann vann að myndinni áður en hann lést árið 2018 en þetta var fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Jóhann leikstýrði.

Sögumaður myndarinnar er leikkonan Tilda Swinton en í verkinu er sagt frá síðustu dögum hjá mannkyni framtíðarinnar. Hermt er að myndin sé eins konar „esseyjumynd“.

Myndin var forsýnd á Berlinale-kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári og voru almennar viðtökur gagnrýnenda afar góðar. Sögðu jafnvel allnokkrir að útkoman væri ein áhugaverðasta vísindaskáldskaparmynd seinni ára. 

Samantektarsíðan Metacritic birti lista yfir bestu og verstu kvikmyndir hátíðarinnar í ár og þar var vitnað í dóm IndieWire, sem segir að myndin sé „gífurlega minnisstæð, vel unnin og frumleg á alla vegu… Draumkennd blanda af hljóði og myndmáli.“

„Hlustið af þolinmæði“

Vefmiðillinn The Film Stage ausaði myndina einnig lofi og þar segir að sé ótvírætt að Jóhann hafi þarna sýnt merki um að vera ósvikinn listamaður á sjónrænu sviði jafnt og í tónlistargeiranum. Gagnrýnandi The Hollywood Reporter fullyrðir að myndin sameini skáldskap og verki í heimildarmyndarstíl með dáleiðandi hætti.

Fjölmiðlamaðurinn Ásgeir H. Ingólfsson sótti Berlinale þetta árið og fjallaði um kvikmynd Jóhanns fyrir Lestina. Í dómi sínum sagði hann myndina á óræðan hátt vera eins konar kveðjubréf að handan og kallar hana ægifagra og brútalíska.

Ásgeir segir:

„Hlustið af þolinmæði,“ biður Tilda Swinton okkur. Hún talar til okkar úr framtíðinni, þar sem loftslagsbreytingar handan okkar skilnings eru við það að tortíma jörðinni. En hún talar líka til okkar úr fortíðinni, í gegnum rithöfundinn og heimspekinginn Olaf Stapledon, sem gaf fyrir 90 árum út hnausþykka Hegelíska framtíðarskáldsögu, The Last and First Men. Hún fjallar meðal annars um loftslagshamfarir, löngu áður en þær urðu vinsælt umræðuefni, og íslenska tónskáldið Jóhann Jóhannsson átti löngu seinna eftir að aðlaga síðustu kafla bókarinnar í handritið sem hún Tilda Swinton las upp fyrir okkur úr hérna á undan.“