Óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Lawrence fer með hlutverk Mystique í kvikmyndinni X-Men: Days of Future Past í leikstjórn Bryan Singer. Þeir sem ekki þekkja til persónunnar, þá er hún stökkbreytingur sem getur breytt sér í allra kvikinda líki.
Í myndinni heyjar X-Men hópurinn stríð til að koma í veg fyrir útrýmingu stökkbreyttra í tveimur tímabeltum. Persónurnar úr upprunalegu X-Men myndunum slást í hóp með yngri útgáfum af sjálfum sér úr X-Men: First Class, í sögulegum bardaga sem verður að verða til þess að fortíðin breytist – til að framtíðin bjargist.
Í nýju myndbroti sem var opinberað í dag má sjá Lawrence sýna mögnuð tilþrif sem Mystique. Í myndbrotinu er sýnt frá atriði sem gerist í fundarherbergi, einn fundarmannanna er með tæki á sér sem nemur stökkbreyttar manneskjur, en þegar tækið byrjar að nema hana í dulargervi eins fundarmannanna, lætur hún heldur betur til sín taka.
Myndin verður frumsýnd á Íslandi þann 21. maí næstkomandi. Hér að neðan má sjá myndbrotið umtalaða.