Streymisveita Amazon ætlar að framleiða sjónvarpsþáttaseríu eftir spennumyndinni Hanna, og nú er búið að finna aðalleikarana. Þeir eru engir aðrir en þau Joel Kinnaman og Mireille Enos, sem áður leiddu saman hesta sína með eftirminnilegum hætti í sjónvarpsseríunni The Killing. Ásamt þeim fer Esme Creed-Miles með aðalhlutverk. Sara Adina Smith leikstýrir, en hún hefur áður leikstýrt sjónvarpsþáttunum Legion, Room 104 og kvikmyndinni Buster’s Mal Heart.
Tökur hefjast í mars í Ungverjalandi, Slóvakíu, Spáni og í Bretlandi.
Handrit þáttanna skrifar David Farr, en hann var annar handritshöfunda upprunalegu kvikmyndarinnar, sem fjallar um unga stúlku með yfirnáttúrulega hæfileika.
Hér er opinber sögurþráður myndarinnar:
Hanna er táningsstúlka sem hefur verið alin upp af föður sínum, fyrrum CIA-útsendara, í óbyggðum Finnlands. Hún er engin venjuleg táningsstúlka því hún er bæði sterkari, fljótari og skarpari en gengur og gerist. Uppeldið hefur allt snúist um að þjálfa hana til að verða miskunnarlaus og gallalaus launmorðingi. Til hvers er þetta uppeldi? Það kemur í ljós þegar hún er send til siðmenningarinnar af föður sínum til að framkvæma leynilegt verkefni. Eftir það sem virðist vera auðveld handtaka hennar af hinni dulu Marissu, þrautþjálfuðum og margreyndum leyniþjónustufulltrúa, snýst atburðarásin upp í banvænan eltingaleik um alla Evrópu, þar sem Hanna sleppur ítrekað undan útsendurum Marissu, en á leiðinni fer hún að spyrja sjálfa sig óþægilegra spurninga um hvað það er sem hún sé raunverulega að gera…..
Enos leikur Marissa. Kinnaman leikur Erik og Creed-Miles leikur Hönnu.
Hinn sænskættaði Kinnaman lék nýlega í Netflix þáttunum Altered Carbon og leikur einnig reglulega í House of Cards. Hann er þekktur úr kvikmyndum eins og Suicide Squad, Robocop og The Girl With the Dragon Tattoo.
Auk The Killing þá er Enos þekkt fyrir aðalhlutverk í ABC dramaþáttunum The Catch. Þá leikur hún í Amazon þáttunum Good Omens. Helstu kvikmyndir hennar eru Gangster Squad, World War Z og If I Stay.