Kvikmyndaleikstjórinn Quentin Tarantino hefur staðfest að hann ætli að gera þriðju Kill Bill myndina.
Glamúrblaðið Entertainment Weekly segir að Tarantino hafi látið þetta út úr sér í ítalska spjallþættinum Parla Con Me, og að hann vilji að myndin verði frumsýnd 10 árum á eftir mynd nr. 2. Þetta þýðir að myndin yrði frumsýnd árið 2014.
Ekkert er þó fast í hendi varðandi söguþráð myndarinnar, en Tarantino hefur sjálfur sagt að myndin myndi snúast um hefnd Nikki Bell vegna drápsins á mömmu hennar, Vernita Green.
Sagan segir að Tarantino hafi tekið upp talsvert af aukaefni með Ambrosia Kelley, leikkonunni sem lék Nikki unga, við tökur á Kill Bill 1 og 2, þar sem hann vildi nota persónuna í framhaldsmyndum síðar meir.
Aðrar heimildir herma að Kill Bill 3 muni segja frá því þegar tveir bandíttar, sem Uma Thurman hjó í hendur og eyru í fyrstu myndinni, muni snúa aftur og leita hefnda. Kill Bill 4 yrði hinsvegar um baráttuna milli dætra Beatrix Kiddo og Vernita Green.

