Paramount Pictures hafa sent frá sér fyrstu stikluna úr Will Ferrell gamanmyndinni Daddy´s Home 2, sem tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið í grínsmellinum Daddy’s Home.
Auk Ferrell, sem snýr aftur í hlutverki Brad Whitaker, þá er Mark Wahblerg mættur aftur til leiks sem Dusty Mayron, ásamt Linda Cardellini í hlutverki Sara og Scarlett Estevez og Owen Vaccaro í hlutverkum barnanna Megan og Dylan.
Tveir glænýir leikarar hafa bæst í hópinn, en það eru þeir Mel Gibson og John Lithgow, sem leika afana, feður Dusty og Brad.
Í myndinni hafa þeir Dusty og Brad ákveðið að taka höndum saman um að halda hin fullkomnu jól fyrir börnin. Það reynir hinsvegar á þessa nýtilkomnu vináttu þeirra þegar karlremban faðir Dusty, sem Mel Gibson leikur, og er allur af gamla skólanum, og hinn ofurblíði og tillitssami faðir Brad, sem John Lithgow leikur, mæta á svæðið og hleypa öllum undirbúningi í uppnám.
Í stiklunni sjáum við Alessandro Ambrossia bregða fyrir en hún er ný eiginkona Dusty, ásamt stjúpdóttur Dusty, Didi Costine. Fjölbragðatröllið og gamanleikarinn John Cena er þó hvergi sjáanlegur, en í lok Daddy’s Home var hann kynntur til sögunnar sem raunverulgur faðir Adrianne.
Þetta er þriðja mynd þeirra Mark Wahlberg og Will Ferrell, en áður hafa þeir gert The Other Guys og Daddy´s Home.
Tekjur The Other Guys námu 119,2 milljónum bandaríkjadala í Bandaríkjunum, en 51,1 milljón dala utan Banadaríkjanna.
Daddy’s Home var einn af óvæntu smellum ársins 2015, en tekjur af sýningum hennar í Bandaríkjunum námu 150,3 milljónum dala og 242,7 milljónum dala utan Bandaríkjanna.
Nýja myndin verður frumsýnd 10. nóvember nk.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: