Journey to the Center of the Earth vakti nokkra athygli þegar hún kom út árið 2008, en hún var ein fyrsta leikna myndin sem nýtti sér þrívíddartæknina á ný, sem Avatar sigraði svo heiminn með og allir eru orðnir svo leiðir á núna. Íslendingar muna etv. betur en aðrir eftir henni, því lítill hluti myndarinnar gerðist við Snæfellsjökul, ásamt því sem Hollywood stjarnan okkar hún Anita Briem fór með stórt hlutverk. Myndin var kjánaleg ævintýramynd, og skartaði konungi kjánalegu ævintýramyndanna, Brendan Frasier, í aðalhlutverki. Myndin gekk ágætlega í miðasölunni, og hafði forvitnisstuðullinn sennilega þar mikið að segja – að sjá hvernig þessi þrívídd væri eiginlega. Stúdíóið misskildi þennan áhuga sem áhuga á sjálfri myndinni, og í dag sjáum við fyrstu stikluna að Journey 2: The Mysterious Island.
Reyndar er þetta eiginlega ekki framhald nema að nafninu til, en líkt og fyrri myndin er þessi mjög lauslega byggð á ævintýri eftir Jules Verne. Brendan Frasier var ófáanlegur til baka, svo að framleiðendur ákváðu að stóla á ungstirnið Josh Hutcherson, sem lék litla frænda Frasier í fyrri myndinni. Til liðsauka fær hann Dwayne „The Rock“ Johnson (sem er að verða sérfræðingur í að taka við seríum sem eru þegar hafnar) sem leikur nýjan stjúppabba drengsins, ásamt engum öðrum en Michael Caine sem leikur afa hans. Þá leikur Luiz Gusman þyrluflugmann þeirra og Vanessa Hudgens er dóttir hans sem flækist með. Leikstjóri er Brad Peyton (Cats & Dogs: The Revenge of Kitty Galore). Hér er stiklan:
Myndin kemur í bíó 24. febrúar 2012. Sér einhver ástæðu til að mæta? Það á eftir að koma í ljós. Myndin gæti orðið miðlungs fjölskylduafþreying… en það má ekki gleyma því að Star Wars er væntanleg aftur á sama tíma – og hver myndi ekki frekar fara á hana. Hvað segið þið lesendur?