Johnson reynir að lifa af

the rockDwayne Johnson hefur verið ráðinn til að leika aðalhlutverkið í myndinni Not Without Hope, sem byggð er á samnefndri sjálfsævisögu eftir Nick Schuyler.

Myndin mun fjalla um fjóra vini, Schuylar og NFL leikmennina Marquis Cooper og Corey Smith ásamt besta vini Schuyler, Will Bleakley, sem er fyrrum ruðningsleikmaður háskólaliðsins í Suður Flórída – en þeir fóru í veiðiferð út á Mexíkóflóa þegar bát þeirra hvolfdi og mennirnir urðu skipreka úti á sjó.

Á næstu dögum þá reyndu mennirnir að halda lífi í þeirri von að hjálp myndi berast. Johnson mun leika Schuyler í myndinni.

Schuyler, sem er fyrrum ruðningsleikmaður og núverandi einkaþjálfari í Tampa í Flórída, sagði;  „Ég er fullur auðmýktar yfir því að Relativity fyrirtækið hafi verið tilbúið að votta þeim Marquis, Corey og Will virðingu með þessum hætti.“

Johnson hefur átt annríkt að undanförnu. Fjórar myndir hafa komið út á þessu ári, Snitch,” G.I. Joe: Retaliation, Pain and Gain og Fast and Furious 6, en bæði G.I. Joe og Fast & Furious 6 þénuðu  meira en 400 milljónir Bandaríkjadala hvor í sýningum á alheimsvísu.

Þetta nýja hlutverk Johnson er ólíkt flestum öðrum hlutverkum hans, þar sem það er drama, en hann hefur hingað til verið mest þekktur fyrir spennumyndir.

Johnson er sjálfur fyrrum atvinnumaður í ruðningi.

Næsta mynd Johnson er Hercules, og nú er hann við tökur á Fast & Furious 7. Þá er hann að gera raunveruleikaþættina The Hero.