Jim Carrey vill gera Dumb and Dumber 2

Gerð framhalds metsölugrínmyndarinnar Dumb and Dumber frá 1994 hefur oft verið rædd í gegnum árin en aldrei farið lengra en það.

Í júní sl. hætti Jim Carrey við þátttöku í myndinni, en í nýju samtali við E-online fréttaveituna segir Jim Carrey að hann og Jeff Daniels, sem léku heimsku vinina tvo í upphaflegu myndinni, vilji báðir gera framhald.

„Ég er klár í bátana,“ sagði Carrey við fréttamann E-online á South by Southwest tónlistar- sjónvarps- og kvikmyndahátíðinni í Texas nú um helgina, en Carrey er staddur á hátíðinni til að vera viðstaddur frumsýningu á nýjustu mynd sinni The Incredible Burt Wonderstone. „Það er komið handrit. Það er skemmtilegt. Jeff og ég erum æstir í að halda áfram.“

Þá mætti spyrja sig, hvað stendur í veginum? „Það snýst um formsatriði,“ segir Carrey. „Nefndirnar sem gefa grænu ljósin verða að klára sína vinnu.“

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Peter Farrelly sagði fyrr á þessu ári að hann myndi vilja fá Channing Tatum til að leika í framhaldsmyndinni. Hann sagði einnig að hann gæti séð Emmu Stone fyrir sér í hlutverki ungrar heimskrar stúlku.

Spurður um þátttöku Tatum og Stone í framhaldsmyndinni, segir Carrey: „Það myndi verða alveg frábært.“