Brenda Joyce, sem lék Jane, unnustu konungs apanna – Tarzans, er látin, 92 ára að aldri.
Banamein hennar var lungnabólga, en Joyce hafði glímt við heilsuleysi í um 10 ár.
Joyce hét upphaflega Betty Leabo og lék í meira en tuttugu bíómyndum á ferlinum. Hún varð best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Jane í Tarzan myndunum.
Joyce lék alls í fimm Tarzan myndum á fimmta áratug síðustu aldar. Fyrsta myndin hét „Tarzan and the Amazons“ þar sem hún lék á móti frægasta Tarzan allra tíma, Johnny Weissmuller árið 1945. Síðasta Tarzanmyndin hennar var „Tarzan´s Magic Fountain“, en þá var það Lex Barker sem lék konung apanna. Myndin var frumsýnd árið 1949, en það ár hætti Joyce kvikmyndaleik.
Eftir að hún hætti störfum í kvikmyndunum, lét hún sig varða málefni innflytjenda meðal annars.
Joyce skilur eftir sig son, tvær dætur og þrjú barnabörn.

