Eflaust kannast flestir ekki við leikstjórann James Wan af nafninu einu, en síðan að 21. öldin byrjaði hefur hann staðið bakvið sumar af ferskustu hryllingsmyndum aldarinnar hingað til; þar ber helst að nefna fyrstu Saw myndina og hina ársgömlu Insidious. Í fyrra var síðan greint frá því að hann hefði tekið það að sér að leikstýra hryllingsmyndinni The Conjuring í tilefni þess að verkefnið flaut aftur upp á yfirborðið undir framleiðslu New Line, en árið 2009 stóð til að framleiða hana hjá Summit Entertainment.
Handrit myndarinnar er byggt á bókinni House of Darkness, House of Light: The True Story eftir Andreu Perron. Bókin á að heita sannsöguleg og fjallar um raunir Perron fjölskyldunnar á áttunda áratug 20. aldar þegar að húsið þeirra varð að sögn gátt fyrir bæði vinalega og hættulega anda. Þau Ron Livingston og Lili Taylor munu leika Perron hjónin, á meðan Patrick Wilson og Vera Farmiga leika hjón sem sérhæfa sig í yfirnáttúrulegu athæfi og ferðast á Perron bóndabýlið til að rannsaka viðburðina sem eiga að hafa átt sér stað þar.
Hayes bræðurnir Carey og Chad (House of Wax, The Reaping) munu skrifa handritið, en samkvæmt The Hollywood Reporter hefur verkefnið hugsanlega skilið við titilinn The Conjuring og stendur núna sem Untitled Warren Files Project þangað til að betri titill finnst.
Búist er við myndinni á næsta ári, en tökur munu líklegast hefjast í mars næstkomandi.