Ástralska Wolverine og Greatest Showman stjarnan Hugh Jackman, tilkynnti fyrr í dag að hann væri á leið í tónleikaferð um heiminn. Þetta verður fyrsta heimsreisa hans af þessu tagi, en hann mun koma fram á stórum útileikvöngum og tónleikastöðum eins og Madison Square Garden í New York.
Jackman hefur undanfarna daga látið í veðri vaka að stórar fréttir væru á leiðinni frá honum, og voru margir að spá því að þær tengdust mögulegri endurkomu Marvel hetjunnar Wolverine, sem hann hefur leikið í mörgum kvikmyndum, nú síðast í Logan. Hann sagði í gríni: „Þetta er ekki söngleikurinn Wolverine.“
En um tónleikaferðina segir Jackman: „Ég er að fara að spila á stórum leikvöngum. Þetta er draumur að rætast. Ég hef gert þetta í Ástralíu, en nú er það allur heimurinn. Ég fer til borga um öll Bandaríkin, og til Evrópu og Bretlands. Þá fer ég til Ástralíu og Nýja Sjálands. Ég syng, dansa og segi sögur.“
Ferðin ber titilinn: The Man. The Music. The Show.
Um er að ræða „eins manns sýningu“, en með í för verður 26 manna hljómsveit, og 30 dansarar og söngvarar.
Jackman mun flytja efni úr kvikmyndunum Greatest Showman, Vesalingunum, og úr söngleikjum sem hann hefur leikið í á Brodway í New York.
Frumsýning verður 18. júní í Houston í Texas. Sala hefst 7. desember nk., en sala á tónleikana í Madison Square Garden hefst 10. desember.