Fyrsta ljósmynd úr nýrri mynd um spýtustrákinn Gosa hefur litið dagsins ljós. Hér er ekki á ferð sykursæt Disneymynd heldur ítölsk útgáfa af sögunni, úr smiðju leikstjórans Matteo Garrone sem er best þekktur fyrir glæpadramað Gomorrah frá árinu 2008
Einnig er komin út kitlu-stikla fyrir myndina, en þar fáum við að sjá betur inn í þann fremur þungbúna 19. aldar heim sem teiknaður er upp í kringum Gosa. Svo virðist þó sem verið sé að fylgja sögunni eftir í helstu atriðum. Myndin lítur einnig út fyrir að vera nokkuð ólík Disney myndinni um Gosa frá árinu 1940.
„Ég veit ekki hversu drungaleg myndin verður,“ sagði Garrone við ítölsku fréttastofuna ANSA, og bætti við að hann myndi verða trúr upprunalegu sögunni.
Hann bætti einnig við að hann vildi helst að börn myndu koma bíó og sjá myndina, rétt eins og fullorðnir.
Í myndinni fer hinn þekkti ítalski Hollywoodleikari Roberto Benigni með hlutverk smiðsins og föður Gosa, Geppetto, en hann smíðar spýtustrákinn á verkstæði sínu í Toscana á Ítalíu, og vonar að hann geti einn daginn orðið alvöru strákur.
Hlutverk Geppetto er það fyrsta sem Benigni tekur að sér síðan hann lék í Woody Allen myndinni To Rome With Love árið 2012.
Benigni hefur áður leikið í sögunni um Gosa. Hann lék Gosa sjálfan í kvikmynd frá árinu 2002, en þá leikstýrði hann einnig og skrifaði handrit.
En það eru fleiri Gosa myndir á leiðinni. Pacific Rim og Shape of Water leikstjórinn Guillermo Del Toro vinnur að hreyfimynd ( e. stop-motion ) fyrir Netflix, sem verður ekki endilega fjölskylduvæn, að því er segir á Yahoo Movies.
Del Toro hyggst segja söguna á nýjan hátt og láta hana gerast þegar fasisminn er að skjóta rótum á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar.
Sjáðu kitluna úr ítölsku Gosa myndinni hér fyrir neðan: