Um daginn sögðum við frá því hér á síðunni að tökur væru hafnar á Top Gun: Maverick, framhaldi hinnar sígildu flugmyndar Top Gun frá árinu 1986, og einnig því að Val Kilmer væri líklegur til að leika í myndinni, og mæta á ný í hlutverki Tom „Iceman“ Kazansky.
Samkvæmt vefsíðunni The Wrap þá er endurkoma Kilmer nú staðfest, og því óþarfi að velta vöngum um það meira.
Óvíst er þó hvað Iceman mun aðhafast í myndinni, en mögulega mun hann þó slengja fram einkennisfrasa sínum: „You Are Dangerous“.
Lítið er heldur vitað hvað nýja myndin er um, en Joseph Kosinski leikstýrir eftir handriti Eric Warren Singer, Peter Craig og Justin Marks.
Það sem menn telja sig vita er að Maverick, sem Tom Cruise leikur, og mögulega Iceman, taka að sér að kenna nýrri kynslóð orrustuflugmanna, í heimi þar sem loftbardagar hafa breyst mikið frá því sem áður var, með tilkomu dróna meðal annars.
Af Top Gun: Maverick er það helst að frétta annað að sjálfur Kenny Loggins, höfundur einkennislags síðustu myndar, Danger Zone, ætlar að gera nýja útgáfu af laginu fyrir myndina, og þá mögulega sem dúett með yngri söngvara.
Danger Zone fór í annað sæti Billboard listans á sínum tíma, og varð á endanum mest selda lag níunda áratugarins, og er enn í dag eitt mest selda kvikmyndalag allra tíma.