Þann 30. október næstkomandi hefjast Norrænir kvikmyndadagar í Lübeck í Þýskalandi. Dagskránni lýkur þann 3. nóvember og verður hátíðin haldin í 55. sinn í ár. Alls verða sýndar 8 íslenskar kvikmyndir á hátíðinni og er ein þeirra opnunarmynd hennar, en það er kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss. Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð segir að helstu aðstandendur myndarinnar muni vera viðstaddir sýninguna og kynna myndina, en þetta eru Benedikt leikstjóri og handritshöfundur, Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi og aðalleikararnir Ingvar E. Sigurðsson og Charlotte Bøving.
Málmhaus mun einnig verða sýnd á hátíðinni og þar munu Ragnar Bragason leikstjóri og handritshöfundur og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir aðalleikkona vera viðstödd sýninguna til að kynna myndina.
Þriðja kvikmyndin í fullri lengd sem sýnd verður er svo Falskur fugl í leikstjórn Þórs Ómars Jónssonar.
Þá eru ónefndar tvær stuttmyndir sem taka munu þátt, en það eru Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og Heilabrotinn eftir Braga Þór Hinriksson.
Auk þessara leiknu mynda verða þrjár heimildamyndir sýndar á hátíðinni, en þær eru Hrafnhildur: Heimildarmynd um kynleiðréttingu í leikstjórn Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur, Aska eftir Herbert Sveinbjörnsson og Hvellur eftir Grím Hákonarson.
Alls verða 160 kvikmyndir frá Norðurlöndunum sýndar á hátíðinni. Allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna hér.