Það kemur líklega engum á óvart en nýjasta mynd leikstjórans Alfonso Cuarón, Gravity, með Sandra Bullock og George Clooney fór beint á topp íslenska bíóaðsóknarlistans nú um helgina. Myndin hefur verið að slá í gegn í Bandaríkjunum þar sem hún hefur setið á toppi vinsældarlistans þar í landi sl. þrjár vikur.
Myndin segir frá tveimur geimförum sem lenda í bráðri lífshættu þegar geimfar þeirra lendir í geimruslsdrífu og laskast svo mikið að viðgerð er óhugsandi. Bullock leikur Ryan Stone sem er í sinni fyrstu geimferð, en Clooney leikur leiðangursstjórann Matt Kowalski sem er í sinni síðustu ferð. Þau eru bæði við vinnu utan geimstöðvarinnar þegar slysið verður. Það orsakar m.a. sambandsleysi við stjórnstöð á Jörð sem þar með getur lítið sem ekkert gert geimförunum til aðstoðar. Vandamálið er risastórt og ekki bætir úr skák að þau Stone og Kowalski hafa takmarkaðar birgðir af súrefni þannig að tíminn sem þau hafa til að bjarga sér er naumur … Fljótlega fer örvænting að grípa um sig. Þau uppgötva að eina leiðin til að komast aftur heim til Jarðar er að fara lengra út í geim.
Í öðru sæti listans er Prisoners með Hugh Jackman í aðalhlutverki, en hún fer niður um eitt sæti á milli vikna. Í þriðja sæti á sinni þriðju viku á lista er kappakstursteiknimyndin Turbo og í fjórða sæti er önnur kappakstursmynd, nema þar eru ekki sniglar á ferðinni heldur alvöru Formúlu 1 kappar, myndin Rush, eftir Ron Howard.
Í fimmta sæti er svo teiknimyndin Aulinn ég 2 sem nú hefur verið í sex vikur á listanum.
Ný mynd er í sjötta sætinu, danska spennumyndin Konan í búrinu og einnig er ný mynd í tíunda sætinu, Battle of the Year, með Chris Brown í aðalhlutverki.
Sjáðu hér hvaða myndir eru í bíó á Íslandi í dag.