Íslendingar elska öðruvísi

valur gunnarssonNæstkomandi laugardag mun rithöfundurinn Valur Gunnarsson brydda upp á þeirri nýbreytni að halda útgáfuteiti fyrir bók í bíói.

Bók Vals heitir Síðasti elskhuginn en bíómyndin sem sýnd verður á útgáfuteitinu heitir því skemmtilega nafni Samfarir og hnignun heimsvelda, og verður hófið haldið í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

Kvikmyndir.is lék forvitni á að vita afhverju bíósalur varð fyrir valinu fyrir útgáfuhóf bókarinnar.

Valur segir ástæðuna vera þá að hin eiginlega ástarsaga í bókinni hefjist þar, á kvikmyndahátíð með myndum Denys Arcand í Bíó Paradís. „Sú hátíð hefur því miður aldrei verið haldin í reynd, svo ég ákvað að halda þessa ímynduðu kvikmyndahátíð í raunveruleikanum, þó í smækkaðri mynd sé,“ sagði Valur í samtali við Kvikmyndir.is

En skiptir þá máli að maður hafi séð myndina ef maður les bókina? „Nei, í raun ekki,“ svarar Valur. „En hún gæti gefið skemmtilegan bakgrunn. Í myndinni segir frá Kanadamönnum sem búa í útjaðri heimsveldis Bandaríkjanna og telja sig vera fyrstir til að sjá hnignun þess. Þeir eru þó helst uppteknir af eigin ástarmálum, sem þeir bæði stunda og ræða í gríð og erg. Það sama má segja um Ísland. Herinn fór heim fyrir sjö árum og á herstöðinni búa nú einmanna stúdentar sem fara í kynlífsferðir í bæinn eins og hermennirnir gerðu áður fyrr, og á það er minnst í bókinni.“

Er mikið um kynlífslýsingar í bókinni?

valur„Nei, alls ekki. Þetta er bók um ást frekar en kynlíf, tilfinningar og ekki líkamsvessa. Fólkið í henni stundar vissulega kynlíf, en það er sjaldnast „í mynd,“ ef svo má segja. Það er aðeins eitt atvik sem við í raun fáum að fylgjast með, en þar er þessu lýst sem trúarlegum atburði frekar en líkamlegum.“

Bókin er ástarsaga eins og kom fram hér að framan, en er Valur með nýja sýn á ástamál Íslendinga – elskum við öðruvísi en aðrar þjóðir? „Ég veit ekki hvort ég sé með nýja sýn, en eftir að hafa ferðast mikið og kynnst mikið af útlendingum hér í gegnum blaðamennsku, kvikmyndahátíðir og annað verð ég að segja já, ástarmálum okkar er öðruvísi háttað.

Líffræðin er eins og tilfinningarnar ef til vill líka, en birtingarmyndir þeirra eru mjög mismunandi eftir stað og tíma. Það sem er helst einkennandi er alger skortur á stefnumótamenningu. Við hendum okkur strax út í djúpu laugina og komumst síðan að því daginn eftir hvort framhald verði á. Hin hliðin á peningnum er sú að sambönd hér hafa ekki langan gerjunartíma, fólk deitar sjaldnast mánuðum saman heldur er annaðhvort saman eða ekki mjög fljótt. Smæð þjóðfélagsins er líklegasta skýringin á báðu. Stefnumót kalla strax á umtal í bæ þar sem allir þekkja alla, og því er erfitt að prófa sig áfram þannig. Þess í stað eru hlutirnir annaðhvort af eða á strax í upphafi, en til að ganga svo langt svo hratt þarf talsvert mikla ölvun, sem er annað einkenni hér.“

Gerist bókin þarna á sama tíma og kvikmyndin sem sýnd verður á opnunarhófinu, þ.e. í kringum 1986?

„Nei. Bókin gerist á árunum 2010 til 2012. Strax á fyrstu blaðsíðu er sagt frá brununum miklu í Rússlandi sumarið 2010 þar sem stór hluti kornforða heimsins brann, en sumir vilja rekja uppreisnirnar í Arabaheiminum til þessa. Í framhaldinu er fjallað um síðustu stóru mótmælin á Austurvelli þá um haustið, en þó er við og við skyggnst aftur. Árið 1986 voru Bandaríkin á hátindi veldis síns og voru við það að sigra í Kalda stríðinu. Eigi að síður spáði Denys Arcand hnignun þeirra. Það er áhugavert að skoða stöðuna nú, rúmum aldarfjórðung síðar, þegar sú hnignun sem hann spáði virðist vel á veg komin.“

Hver er söguþráðurinn í bókinni í stuttu máli?

„Hún fjallar í grunninn um þrjár samtvinnaðar ástarsögur. Sú fyrsta gerist í Rússlandi þar sem ástarmálum svipar enn til rómantíkur 19. aldar. Í þeirri næstu er sagt frá ástarsambandi við þýska konu, sem byrjar á Íslandi en endar í Montreal og mikið er um átök. Að lokum er sagt frá íslenskri ást, sem nær hápunkti sínum í norðlenskri sveit. Sátt og samlyndi virðast loksins ætla að nást og hetja okkar telur sig geta haldið sigri hrósandi út í sólarlagið, en gleymir að gá að því að ekkert sólarlag er að finna á norðlenskum sumrum.“

Útgáfuteitið hefst laugardaginn 9. nóvember kl. 18.00, í Bíó Paradís.