Jæja, þá er forsýningu okkar lokið og við getum varla annað en þakkað fyrir þann allsvakalega áhuga sem fólk sýndi gagnvart henni. Við biðjumst velvirðingar fyrir þessu örlitla veseni við innganginn, en þannig er mál með vexti að heill hellingur af fólki mætti til að kaupa miða á staðnum og voru aðrir sem höfðu staðfest komu en mættu síðan aldrei til að kaupa sinn miða við dyrnar, sem auðvitað tafði sýninguna þar sem við þurftum að gefa viðkomandi mönnum smá séns að mæta, en að lokum urðum við bara að hleypa nýjum inn.
Svo annað… þeir sem komu í búningum og fengu ekki „glaðning“ ættu að senda á okkur strax póst (kvikmyndir@kvikmyndir.is) og við útvegum ykkur það sem þið áttuð að fá (á einn hátt eða annan, jafnvel þótt við þurfum að afhenda það heim til ykkar!). Það mættu talsvert fleiri í búningum en átt var von á. Við birtum nokkrar ljósmyndir bráðlega. Engu að síður finnst okkur leiðinlegt að sumir hafi farið heim tómhentir. Það föttuðu heldur ekki allir að það átti að sækja glaðninginn í sjoppunni. En eins og ég segi, við sjáum til þess að allt reddist á endanum…
Allavega…
Salurinn var pakk fullur og virtist stemmningin vera bara djöfulli góð. Við báðum einnig sérstaklega um að hækka aðeins í hljóðinu til að fá smá fíling fyrir ofbeldinu og kúlnahríðunum þá sérstaklega. Þið kannski funduð fyrir því.
En þessi forsýning var ágætis tilraun fyrir okkur á vefnum. Fyrsta tilraunin okkar var Public Enemies í síðasta mánuði, sem gekk sæmilega. Þessi sýning var hins vegar algjör draumur, og planið er að halda áfram (og vonandi forsýna bara *góðar* myndir). Þið mættuð endilega senda pósta á okkur og koma með uppástungur um hvaða ræmu við ættum að taka fyrir næst.
Annars, þá neyðist ég til að spyrja þá sem fóru:
Hvernig fannst ykkur Inglourious Basterds? Komið endilega með ykkar einlægu komment…

