Hvíta húsið fellur – Ný plaköt

Í gær var spennutryllirinn A Good Day to Die Hard frumsýndur og fyrir þá sem ekki geta fengi nóg af „die hard hasar“ þá er ekki langt að bíða næstu myndar af því taginu.

Myndin Olympus has Fallen verður frumsýnd í apríl en hún segir frá því þegar ráðist er á Hvíta húsið og það hertekið af hryðjuverkamanni, og forsetanum rænt ( Olympus er leyniorðið yfir Hvíta húsið sem leyniþjónustumenn nota ).
Fyrrum lífvörður forsetans, Mike Banning, sem var rekinn með skömm úr leyniþjónustunni, er læstur inni í húsinu. Öryggislið forsetans reynir að bregðast við hryðjuverkaárásinni, en neyðist nú til að reiða sig á vitneskju Bannings til að geta náð Hvíta húsinu úr höndum hryðjuverkamannanna, bjargað forsetanum og komið í veg fyrir enn meiri hörmungar.

Hér fyrir neðan eru tvö ný plaköt fyrir myndina. Á því fyrra er Aaron Eckhart í hlutverki forseta Bandaríkjanna, en á því síðara er Gerard Butler í hlutverki leyniþjónustumannsins fyrrverandi:

 

Ásamt þeim Butler og Eckhart leika í myndinni Morgan Freeman, Ashley Judd, Melissa Leo, Angela Bassett, Robert Forster og Dylan McDermott.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 22. mars nk. en hér á Íslandi er frumsýning áætluð 19. apríl.